Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, reyndi í dag að lægja öldurnar og sannfæra umheiminn um að spænskt efnahagslíf væri ekki að fara á hliðina. Lántökukostnaður Spánar hefur hækkað mjög mikið síðustu daga.
Rajoy hélt í dag ræðu í Sitges í austurhluta Spánar. Hann sagði að skilaboð sín til umheimsins væri að menn ættu að sýna stillingu. „Spánn er mjög traust land, þó þessa stundina sé eins og enginn muni eftir því,“ sagði Rajoy.
Skuldatryggingarálag á 10 ára spænskum skuldabréfum fór í gær upp í 5,48%, en þetta hlutfall hefur ekki verið hærra síðan í apríl 2003.
„Landið mun komast í gegnum þetta óveður upp á eigin spýtur og með stuðningi samstarfslanda okkar í Evrópu,“ sagði Rajoy. „Það sem er í húfi er ekki bara efnahagsleg framtíð Spánar heldur framtíð evrusamstarfsins.“
Á sama tíma og lántökukostnaður Spánar eykst aukast ríkisskuldir landsins hratt. Ástæðan er að m.a. að ríkissjóður hefur þurft að styðja við bankakerfið og veita Katalóníu-héraði fjárhagsstuðning. Atvinnuleysi á Spáni er 24%. Einkaneysla hefur verið að dragast hratt saman og þessu fylgir að skatttekjur ríkissjóðs minnka.