Milljarðamæringurinn George Soros segir að evrópskir leiðtogar hafi um þrjá mánuði til að bjarga evrunni. Hann gagnrýnir aðgerðir Evrópusambandsins og segir að leiðtogarnir skilji ekki eðli vandans.
Soros segist hafa trú á að grískir kjósendur kjósi í þingkosningunum 17. júní þing sem verði tilbúið til að semja við ESB um skilyrði fyrir lánveitingum.
Hann segir hins vegar að í haust fari efnahagslíf Þýskalands að veikjast og það muni leiða til þess að erfiðara verði fyrir Angelu Merkel að afla stuðnings við nauðsynlegar aðgerðir. Þess vegna hafi menn núna um þrjá mánuði til að bjarga evrunni. Ef það takist ekki á þessu tímabili sé ólíklegt að það takist í vetur þegar staða efnahagsmála í Þýskalandi verði orðin erfiðari.
Soros segir að evrópskir leiðtogar skilji ekki eðli þess vanda sem blasi við. Þeir beini sjónum sínum fyrst og fremst að skuldunum, en hann segir að vandinn sé ekki síður bankakreppa og skortur á samkeppnishæfni efnahagslífs Evrópu.
Soros segir að það sé ekki hægt að takast á við skuldakreppuna með stöðugum niðurskurði í ríkisfjármálum. Það sé einungis hægt að takast á við skuldirnar með auknum hagvexti.