Portúgal mun setja yfir 6,65 milljarða evra, eða yfir þúsund milljarða íslenskra króna, í björgun þriggja banka þar í landi. Tveir bankanna eru einkareknir, BCP og BPI, en sá þriðji, CGD, er í eigu ríkisins. Er þessi innspýting nauðsynleg til að standast kröfur evrópskra bankayfirvalda. Tilkynnti fjármálaráðherra landsins þetta í morgun.
Portúgalar urðu þriðja evrulandið til að þiggja aðstoð Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fyrra og nam aðstoðin 78 milljörðum evra. Þessu fylgdi krafa um mikinn niðurskurð og aðhald í ríkisfjármálum.
ESB og AGS hafa sagt að ástandið í Portúgal sé verra en talið var í fyrstu en segja stjórnvöld þar í landi leggja sig fram við að taka á vandanum.