Málflutningur í máli sem tóbaksframleiðandinn Philip Morris höfðaði gegn Noregi fyrir að banna að tóbak sé sýnilegt í verslunum hófst í dag. Fyrirtækið telur þetta fela í sér brot á evrópskum samkeppnisreglum. Ísland er með sömu reglur og Noregur í þessum efnum.
Anne Edwards, talsmaður Philip Morris sagði í samtali við AFP að augljóst sé að þegar ekki megi sýna vöruna í verslunum sé erfitt að keppa á markaði. Hún minnir á að tóbak sé lögleg vara.
Noregur er ekki eina Evrópulandið sem hefur bannað að tóbak sé sýnilegt í verslunum. Samskonar reglur eru á Íslandi og Írlandi.
Philip Morris lagði fram kæru í málinu árið 2010, en kæran gekk út á að bannið væri brot á EES-reglum. Dómstóllinn ákvað að leita eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum. Í áliti hans segir að bannið sé í samræmi við EES-reglur sem kveði á um að reynt verði að draga úr eftirspurn eftir tóbaki. Það er hins vegar dómstóls í Noregi að komast að endanlegri ákvörðun í málinu. Málflutningur í málinu hófst í dag, en reiknað er með að honum ljúki 13. júní.
Philip Morris segir að þetta bann hafi leitt til minni sölu á tóbaki.