Fréttaskýring: Bankabandalag til bjargar?

Þróunin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum síðustu daga gefur til kynna að sumarið verður allt annað en tíðindalítið. Hætturnar leynast víða. Greiðsluþrot Grikklands og uppbrot evrópska myntbandalagsins. Hörð lending í Kína. Veikur efnahagsbati í Bandaríkjunum. Og lánveitingar milli ríkja drógust saman um tæplega 800 milljarða Bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Það er mesti samdráttur frá því að fjármálakreppan skall á haustið 2008. Skulda- og bankakreppan á evrusvæðinu er því farin að teygja anga sína út fyrir álfuna með áþreifanlegum hætti.

Til marks um þá auknu svartsýni sem einkennir markaði beggja vegna Atlantshafsins þá lét fjárfestirinn George Soros þau ummæli falla um liðna helgi á ráðstefnu á Ítalíu að evrópskir ráðamenn hefðu aðeins þrjá mánuði til stefnu eigi að takast að afstýra hruni myntbandalagsins. Hann segir þýska hagkerfið ekki standa jafn traustum fótum eins og stundum er haldið fram. Soros spáir því að þegar nær dregur hausti fari að draga úr hagvexti í Þýskalandi – og um leið verði Angelu Merkel kanslara gert erfiðara um vik að sannfæra þýskan almenning um nauðsyn þess að koma öðrum evruríkjum í erfiðleikum til aðstoðar.

Ljóst er að fjölmörg ríki á evrusvæðinu munu á næstu mánuðum þurfa á slíkri aðstoð að halda – að öðrum kosti blasir við þeim fátt annað en greiðsluþrot. Í gærmorgun tilkynntu portúgölsk stjórnvöld að þau hefðu þurft að veita 6,65 milljarða evra, jafnvirði um þúsund milljarða íslenskra króna, til þriggja banka þar í landi. Sú fjárhagsinnspýting var talin nauðsynleg til að bankarnir uppfylltu kröfur evrópska bankaeftirlitsins um lágmarks eigið fé.

Vegna náinna efnahagstengsla þá hefur skuldakreppan í Grikklandi óhjákvæmilega haft mikil áhrif á Kýpur. Frá því var greint í fjölmiðlum um helgina að flest benti til þess að stjórnvöld í Kýpur, en þar búa ríflega 1,1 milljón manna, ættu ekki annarra kosta völ en að leita til ESB og AGS eftir fjárhagsaðstoð. Lán kýpverskra banka til Grikklands nema 23 milljörðum evra.

Að lána kreditkortið sitt

Á meðal evrópskra stefnusmiða er nú rætt um það í vaxandi mæli að grípa verði til aðgerða sem miða að því að koma á fót bankabandalagi innan evrusvæðisins. Slíkt bandalag, sem er talið nauðsynlegt eigi evrusvæðið að vera sjálfbært til lengdar, myndi felast í því að sett yrði upp sameiginlegt fjármálaeftirlit, innstæðutryggingakerfi og ráðist í útgáfu evruskuldabréfa.

Fram til þessa hafa allar hugmyndir í þá veru mætt mikilli andstöðu Þjóðverja. Jens Weidmann, bankastjóri Þýska seðlabankans, lét nýlega hafa það eftir sér að útgáfa sameiginlegra evruskuldabréfa væri það sama og lána einhverjum kreditkortið sitt, sem kann ekki að fara með það. Hins vegar telja sumir fréttaskýrendur að tillögur Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, um ríkisfjármálabandalag, sem hann kynnti um helgina, séu í raun settar fram í samráði við Þjóðverja.

Fram kemur í frétt Financial Times að Merkel vonist til þess að leiðtogafundur ESB í lok júní muni samþykkja vegvísi að slíku bandalagi. Nái þær tillögur fram að ganga yrði um að ræða veigamestu breytingarnar á grunnstoðum evrusvæðisins frá stofnun þess. Ríkisfjármálabandalag þýðir með öðrum orðum að einstök aðildarríki evrunnar missa forræði á ríkisfjármálum sínum. Fjármálaskýrendur benda á að ráðamenn í Þýskalandi myndu aldrei samþykkja að koma á fót bankabandalagi nema fyrst yrðu tekin skref í átt að sameiginlegri yfirstjórn ríkisfjármála á evrusvæðinu.

Endurtekur sumarið 2008 sig?

Það er aftur á móti ljóst að reikningurinn við sameiginlega útgáfu evruskuldabréfa myndi að stórum hluta lenda á þýskum skattgreiðendum. Samkvæmt nýrri greiningu fjárfestingabankans Jefferies þá myndi lántökukostnaður Þýskalands meira en tvöfaldast – úr 1,4% í 3,7%. Það þýddi árlegan kostnað upp á 49 milljarða evra, eða um tæplega 2% af landsframleiðslu Þýskalands. Það stóð því ekki á svörum þegar Merkel var spurð um afstöðu sína um liðna helgi til þess að koma á fót ríkisfjármálabandalagi, útgáfu evruskuldabréfa og heimild til Evrópska seðlabankans að kaupa upp ríkisskuldabréf evruríkja. „Ekki undir neinum kringumstæðum,“ sagði Merkel. Fjárfestar ættu að stilla væntingum sínum í hóf. Það er hætt við því að sumarið sem er í vændum muni minna um margt á sumarið 2008.

Evrópa á bjargbrúninni

» Fjárfestar óttast að evrukreppan sé farin að hafa áhrif á efnahag Kína og Bandaríkjanna.
» Portúgalskir bankar fá ríkisaðstoð.
» Kýpur, minnsta evruríkið, á í miklum efnahagsvanda og þarf líklega að leita á náðir ESB og AGS.
» Nauðsynlegt að koma á fót bankabandalagi eigi myntbandalagið að vera sjálfbært til lengdar.
» Þjóðverjar andsnúnir slíkum hugmyndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK