Svo kann að fara að spænsk stjórnvöld óski eftir allt að 100 milljarða evru aðstoð frá Evrópusambandinu svo hægt sé að bjarga fjármálakerfi Spánar. Þetta er mun hærri upphæð en áður var nefnd.
Fjármálaráðherrar evrusvæðisins ræddust við á símafundi í dag sem hófst kl. 14. Umræðuefnið er vandi spænska bankakerfisins. Ekki hefur komið formleg óska frá Spáni um aðstoð, en Evrópusambandið hefur þrýst á spænsk stjórnvöld að gera það sem fyrst vegna þess að forystumenn sambandsins óttast að óvissan á evrusvæðinu aukist enn um næstu helgi þegar Grikkir ganga til kosninga.
Rætt hefur verið um að Spánverjar óski eftir aðstoð upp á 30-40 milljarða evra, en tveir hásettir embættismenn hjá ESB sögðu í samtali við fréttastofu Reuters að það kunni að vera nauðsynlegt að setja allt að 100 milljarða inn í spænskt fjármálkerfi.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Brussel um kl. 16 í dag þar sem niðurstaða fundar fjármálaráðherranna verður kynnt.