Fjármálaráðherrar evrulandanna ætla í dag að halda símafund til að ræða mögulegar björgunaraðgerðir vegna banka á Spáni. Reiknað er með að formleg ósk komi frá Spáni um aðstoð um helgina.
Þetta kemur fram í frétt á BBC. Fram að þessu hafa stjórnvöld á Spáni neitað því að þörf sé á sérstökum björgunaraðgerðum af hálfu ESB vegna bankakerfisins á Spáni.
Í frétt frá AFP segir að símafundurinn verði haldinn kl. 14 í dag og boðaður hefi verið blaðamannafundur kl. 16.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áætlað að setja þurfi 40 milljarða evra, jafnvirði 6.500 milljarða króna, í bankakerfið á Spáni. Sjóðurinn sagði í gær að álagspróf sýndu að fjármálakerfið á Spáni gæti bjargað sér, en þoldi illa áföll.
Evrópusambandið vildi í morgun ekki gera mikið úr fréttum um að þörf væri á björgunaraðgerðum vegna spænskra banka. Vitor Constancio, varaformaður Seðlabanka Evrópu, sagði hins vegar að búist væri við að beiðni um aðstoð kæmi frá Spáni mjög bráðlega.
BBC segir að Evrópusambandið þrýsti á Spán að leggja fram slíka ósk um þessa helgi. Um næstu helgi vera þingkosningar á Grikklandi og búist er við að úrslit þeirra kunni að ýta enn undir óvissu á evrusvæðinu. Betra sé að grípa til aðgerða á Spáni strax frekar en að bíða.