Sex af tíu sparisjóðum á landinu voru reknir með tapi á síðasta ári. Seðlabankinn segir að þeir standi höllum fæti og forsendur fyrir áframhaldandi rekstri margra þeirra séu að óbreyttu veikar.
Tíu sparisjóðir eru reknir á landinu, en það liggur fyrir að þeim kemur til með að fækka á næstunni. Samkomulag hefur náðst um kaup Landsbankans á Sparisjóði Svarfdæla og Arion banki og Sparisjóður Ólafsfjarðar munu sameinast. Arion banki á 94,45% stofnfjár í Afli sparisjóði og hefur haft í hyggju að sameina sjóðinn bankanum.
Heildareignir starfandi sparisjóða voru u.þ.b. 60 milljarðar um sl. áramót, sem nam 1,5% af eignum lánastofnana og 2% af eignum innlánsstofnana.
Í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í síðustu viku, segir að rekstur sparisjóðanna hafi gengið brösuglega, en sex þeirra voru reknir með tapi árið 2011 og hagnaður hinna var nánast enginn að undanskildum Afli sparisjóði. Afl sýndi talsverðan hagnað í bókum sínum, en hann var til kominn vegna niðurfærslu á skuldum sjóðsins við Arion banka.
Vandi sparisjóðanna felst meðal annars í háum rekstrarkostnaði í hlutfalli af reglulegum tekjum. Þannig nam rekstrarkostnaður þeirra í hlutfalli af reglulegum tekjum rúmlega 90% og hlutfall rekstrarkostnaðar af heildareignum var tæplega 4%.
Ef frá eru taldir þeir sparisjóðir sem fyrirhugað er að sameina bönkunum eru tveir með eiginfjárhlutfall undir lögbundnu lágmarki, þ.e.a.s. Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Bolungarvíkur. Fjármálaeftirlitið hefur veitt þessum sparisjóðum tiltekinn frest til að skila inn greinargerð þar sem fram kemur til hvaða ráðstafana sjóðirnir hyggjast grípa af þessu tilefni.
Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis eru með eiginfjárhlutfall nálægt þeirra lögbundna lágmarki en Seðlabankinn segir að gengislánadómar Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir gætu haft haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá sjóði.
Í skýrslu Bankasýslu ríkisins um starfsemina á síðasta ári segir að Bankasýslan telji aðkallandi að taka ákvarðanir um framtíð sparisjóðakerfisins. „Minni háttar breytingar kunna að vera ófullnægjandi til að tryggja sjálfbærni sparisjóðanna til lengri tíma,“ segir í skýrslunni.