Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 8,1 milljarð króna á 1. ársfjórðungi sem er nokkru hagstæðari niðurstaða en á sama tíma 2011 er hún var neikvæð um 11,8 milljarða króna. Tekjuhallinn nam 1,9% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 4,6% af tekjum hins opinbera og hefur tekjuafkoman ekki verið hagstæðari síðan á öðrum ársfjórðungi 2008 á þennan mælikvarða.
Heildartekjur hins opinbera hækkuðu um rúm 11% milli 1. ársfjórðungs 2011 og 2012 eða úr 160,8 milljörðum króna í 178,7 milljarða króna. Tekjuhækkunin skýrist fyrst og fremst af átta milljarða króna aukningu í tekjusköttum, fjögurra milljarða aukningu í vöru- og þjónustusköttum og tveggja milljarða króna aukningu í rekstrartekjum.
Heildarútgjöld hins opinbera hækkuðu hins vegar um 8,2% á sama tíma eða úr 172,6 milljörðum króna 2011 í 186,7 milljarða króna 2012. Sú útgjaldahækkun skýrist aðallega af rúmlega fimm milljarða króna hækkun í launakostnaði, 3,3 milljarða króna hækkun í kaupum á vöru og þjónustu, þriggja milljarða hækkun á vaxtakostnaði og 2,2 milljarða króna hækkun í félagslegum tilfærslum til heimila. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar.
Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.897 milljörðum króna í lok 1. ársfjórðungs 2012 eða sem svarar 105,4% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Að teknu tilliti til peningalegra eigna var hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, neikvæð um 750 milljarða króna í lok ársfjórðungsins eða sem svarar 41,7% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um 39,6% af landsframleiðslu á sama ársfjórðungi 2011 og 33,6% á sama ársfjórðungi 2010. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs hefur því versnað um 104 milljarða króna milli 1. ársfjórðungs 2011 og 2012.