Sparisjóðurinn í Keflavík, SpKef, afskrifaði sjö milljarða króna og færði niður útlán fyrir rúma átján milljarða króna síðustu tvö árin fyrir fall bankans. Einnig voru háar fjárhæðir lánaðar starfsmönnum, stjórnendum og félögum þeim tengdum án trygginga.
Var sagt frá þessu í fréttum RÚV klukkan 18 en upplýsingar um þetta má finna i skýrslu PriceWaterhouse Coopers um starfshætti sparisjóðsins. Skýrslan er 500 blaðsíður og var hún unnin að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Um fimm mánuði tók að vinna skýrsluna sem fjallar um síðustu tvö ár sjóðsins.
Í skýrslunni er farið hörðum orðum um starfsemi sjóðsins og bent á mikil völd þáverandi sparisjóðsstjóra, Geirmundar Kristinssonar. Í frétt RÚV kemur fram að hann hafi haft heimild til að veita lán sem voru allt að 15 prósent af eiginfjárgrunni sjóðsins. Þá segir einnig að dæmi séu um að hann hafi samþykkt lánveitingar sem hafði verið hafnað af lánanefnd.
Einnig voru starfsmönnum veitt há lán án samþykkis sparisjóðsstjórans og lánveitingar fóru sjaldnast fyrir lánanefnd. Er í skýrslunni tekið dæmi um þjónustufulltrúa sem fékk rúmlega 200 milljóna króna lán sem nú hefur verið afskrifað.
Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna samruna SpKef og Landsbankans nemur tuttugu og sex milljörðum króna.