Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við Reuters fréttastofuna að íslenska ríkið ætli að selja hlut í Landsbankanum. Mun salan fara fram á þessu ári og því næsta en lagt er upp með að eignarhlutur ríkisins fari úr 81,3 prósentum og niður í tvo þriðju hluta.
„Markmiðið er að hefja sölu hluta á þessu ári. Selja smátt í einu á þessu ári og næsta þar til við erum komin niður í tvo þriðju hluta,“ segir Jóhanna í viðtali við Reuters. Að sögn hennar er vilji til þess hjá ríkisstjórninni að eiga til frambúðar tvo þriðju hluta í bankanum.
Forsætisráðherra sagði einnig koma til greina að selja hluti ríkisins í öðrum bönkum að því gefnu að gott tilboð fáist.
Viðtalið við Jóhönnu má sjá hér.