Frá árinu 1981 hefur nafnverð blokkaríbúðar í Safamýri í Reykjavík hækkað að jafnaði um 11,9% á ári. Þetta kom fram á fundi Íslandsbanka í gær þar sem m.a. var fjallað um fasteignaverð.
Á fundinum var sýnd auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu árið 1981, en þar var 117 fermetra íbúð í Safamýri auglýst til sölu á 750 þúsund krónur. Fram kom á fundinum að hægt væri að finna á fasteignavef mbl.is í dag auglýsingu þar sem 119 fm íbúð í Safamýri er auglýst til sölu á 24,9 milljónir.
Jón Finnbogason, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, tók fram að þetta væri augljóslega ekki sama íbúðin, en þessar tvær auglýsingar gæfu þó til kynna hvaða verðbreytingar hefðu átt sér stað á þessum rúmlega 30 árum. Hækkunin væri 11,9% á ári, en raunverðshækkunin er mun minni því mikil verðbólga hefur verið hér á landi á þessu tímabili. Raunar kom fram hjá Ingólfi Bender, forstöðumanni Greiningar Íslandsbanka, að verðlag hefði hækkað um 7,5% að meðaltali á ári frá árinu 1980.
Ingólfur sagði að nú væri talsvert rætt um verðbólu á fasteignamarkaði. Hann sagðist ekki vilja nota það hugtak. Frá hruni hefði raunverðshækkun á fasteignamarkaði verið 4-5%. Þetta benti ekki til þess að það væri einhver verðbóla á fasteignamarkaði. Það orð væri yfirleitt ekki notað fyrr en verðhækkunin næmi tugum prósenta. Ingólfur sagði að sögulega séð væri fasteignaverð ekki hátt um þessar mundir. Verðið væri heldur ekki hátt ef litið væri til byggingakostnaðar.