Skuldir ríkissjóðs Spánar eru komnar upp í 72,1% af vergri landsframleiðslu, en fyrir ári voru þær 63,6%.
Skuldir ríkissjóðs Spánar hafa hækkað hratt á síðustu misserum vegna þess að ríkið hefur tekið á sig skuldir frá bankakerfinu og einnig hefur það þurft að aðstoða skuldugar héraðsstjórnir. Þá veldur gríðarlegt atvinnuleysi ríkissjóði miklum erfiðleikum. Ríkissjóður þarf að greiða háar upphæðir í atvinnuleysisbætur og skatttekjur minnka.
Spánn hefur ekki verið í hópi skuldugustu evruríkjanna. Skuldir Grikklands áður en skuldir landsins voru lækkaðar með afskriftum voru 165% af landsframleiðslu. Skuldir Írlands eru yfir 100% og skuldir Ítalíu um 120%.
Stjórnvöld á Spáni reikna með að skuldahlutfallið verði komið upp í 79,8% fyrir lok þessa árs. Í þessari tölu er ekki reiknað með láni upp á 100 milljarða evra frá Evrópusambandinu, en lánið var samþykkt fyrr í þessum mánuði.