Greiða 171 milljarð af lánum

Reuters

Ríkissjóður Íslands og Seðlabanki Íslands greiða í byrjun þessarar viku samtals 171 milljarð króna af lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Norðurlöndum sem tekin voru í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda sem studd var af AGS.

Um er að ræða fyrirframgreiðslu að fjárhæð 319 milljónir SDR, jafnvirði um 62 milljarða króna til AGS og 674 milljónir evra, jafnvirði um 109 milljarða króna til Norðurlandanna.

Búið að greiða rúmlega helming

Að þessum fyrirframgreiðslum loknum verður búið að greiða til baka 53% af upphaflegri lánsfjárhæð frá AGS og 59% af upphaflegri lánafyrirgreiðslu Norðurlandanna.

Þessi ákvörðun um fyrirframgreiðslur kemur í framhaldi af skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs á alþjóðlegum mörkuðum í maí síðastliðnum að fjárhæð 1.000 milljónir bandaríkjadala, að jafnvirði 125 milljarða króna, segir í frétt á vef Seðlabanka Íslands.

„Sú aðgerð undirstrikar aðgang Íslands að erlendum lánsfjármörkuðum og veitir svigrúm til að endurgreiða önnur lán sem eru til skemmri tíma sem tekin voru sem hluti af efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS. Fyrirframgreiðslan nú nær til gjalddaga sem falla á árinu 2013 og 2014 í tilfelli AGS-lána. Greiðslur til Norðurlandanna eru vegna gjalddaga sem falla á árunum 2016, 2017 og 2018.

Ákvörðun um endurgreiðslu er jafnframt tekin með hliðsjón af tiltölulega rúmri lausafjárstöðu ríkissjóðs og Seðlabankans í erlendri mynt næstu misseri,“ segir í frétt Seðlabankans.

Fengu lánaða 558 milljarða króna

Lán AGS og Norðurlandanna námu í upphafi um 3,5 milljörðum evra eða sem svarar um 558 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, Útgáfa ríkissjóðs í maí sl. og endurgreiðsla lána nú hefur ekki áhrif á hreinar skuldir ríkissjóðs, en heildarskuldir ríkissjóðs hækka um 2,6% af VLF þar sem hluta lántökunnar er varið til að greiða niður skuldir sem færðar eru hjá Seðlabankanum.

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins lækkar í heild um u.þ.b. 2,6% af VLF við þessar breytingar en hrein skuldastaða er óbreytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK