Undirritaður hefur verið samningur um sölu á Pennanum á Íslandi ehf. Seljandi er Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka hf., og kaupandi er fjárfestahópur undir forystu Ingimars Jónssonar, Ólafs Stefáns Sveinssonar og Stefáns D. Franklín.
Í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér 5. janúar síðastliðinn og í auglýsingum sem birtar voru í kjölfarið, var Penninn á Íslandi ehf. auglýstur til sölu. Í kjölfar kynningar var kallað eftir tilboðum frá áhugasömum fjárfestum og á þeim grundvelli var ákveðið að ganga til viðræðna við fyrrgreinda aðila, sem áttu hagstæðasta tilboðið. Þeim viðræðum er nú lokið með undirritun samnings um kaup þeirra á Pennanum á Íslandi. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, segir í tilkynningu.
Ráðgjafi kaupenda var Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.