Arion sleppir tökum á Pennanum

Penninn og Eymundsson reka bóka- og ritfangaverslanir víða um land.
Penninn og Eymundsson reka bóka- og ritfangaverslanir víða um land. Morgunblaðið/Golli

Rúmlega þrjú ár liðu frá því að Arion banki tók yfir rekstur Pennans þar til fyrirtækið var selt. Nýir eigendur tengjast Gunnari Dungal sem rak félagið til ársins 2005 þegar það var selt. Kaupendur fóru í útrás sem endaði með gjaldþroti upp á 7,5 milljarða.

Penninn verður 80 ára á þessu ári, en fyrirtækið var stofnað árið 1932 af bræðrunum Baldvini P. Dungal og Halldóri P. Dungal. Það var rekið sem fjölskyldufyrirtæki til ársins 2005, undir forystu Gunnars Dungal þáverandi forstjóra. Þetta var traust og gott fyrirtæki og hafði nær öll árin þar á undan verið rekið með hagnaði.

Umsvif Pennans margfölduðust á árunum 1995-2005, en fyrirtækið eignaðist bókaverslanir Eymundsson árið 1996. Þá keypti Penninn húsgagnaverslunina GKS árið 2000 og styrkti sig á markaði fyrir skrifstofuhúsgögn. Penninn keypti einnig bóka- og ritfangaverslunina Bókval á Akureyri og ritfanga- og tölvuverslunina Griffil í Reykjavík.

Starfsmönnum fjölgaði úr 300 í 2.500

Þegar Penninn var seldur árið 2005 störfuðu um 300 manns hjá fyrirtækinu. Kaupendur fyrirtækisins var hópur fjárfesta undir forystu Kristins Vilbergssonar. Nýir eigendur ætluðu sér stóra hluti. Það sést kannski best á því að þegar fyrirtækið varð gjaldþrota í ársbyrjun 2009 störfuðu um 2.500 manns hjá fyrirtækinu í sjö löndum.

Nýir eigendur hugsuðu stórt. Þeir keyptu 30% hlut í Te og kaffi árið 2006, en sá hlutur var seldur aftur 2009. Penninn eignaðist Saltfélagið árið 2008 og þar með meirihluta í GH-ljósum í Garðabæ. Það keypti einnig bókaverslanir á Ísafirði og Akranesi. Penninn eignaðist verslunina Habitat í árslok 2007, en Habitat-verslanirnar voru seldar í ársbyrjun 2009, stuttu áður en Penninn varð gjaldþrota.

Í útrás í Írlandi, Finnlandi, Lettlandi og Litháen

Stjórnendur Pennans fóru í mikið útrásarævintýri í Írlandi, Finnlandi, Lettlandi og Litháen. Félagið eignaðist meirihluta í húsgagnafyrirtækinu Coppa í Lettlandi, rekstrarvörukeðjuna Officeday sem starfar í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen og kaffiframleiðandann Melna Kafija ásamt því að eiga meirihluta í Insomnia kaffihúsakeðjunni sem starfrækt er á Írlandi.

Penninn varð gjaldþrota í mars 2009. Heildarkröfur í búið voru um 9 milljarðar króna. Skiptum lauk síðla árs 2011 og var tap kröfuhafa um 7,5 milljarðar króna, en stærsti kröfuhafi var Arion banki.

Arion bankinn ákvað að reka innlenda hluta fyrirtækisins áfram eftir gjaldþrotið og voru eignir færðar yfir til dótturfélagsins Eignabjargs. Hörð gagnrýni kom fram á bankann frá samkeppnisaðilum í sölu bóka og ritfanga og eins húsgangafyrirtækjum, en þeir héldu því fram að bankinn væri að dæla hundruðum milljóna inn í fyrirtækið og virti ekki reglur á samkeppnismarkaði.

Arion banki hafnaði þessu og sagði í tilkynningu að bankinn hefði lagt Pennanum til tæpar 100 milljónir króna frá því að bankinn tók yfir félagið á sínum tíma. Ennfremur sagði að ákveðið hefði verið að auka hlutafé Pennans um 200 milljónir króna, ekki til að fjármagna taprekstur, heldur sem lið í undirbúa sölu fyrirtækisins.

Bankinn rak fyrirtækið í þrjú ár

Það var svo loksins í janúar á þessu ári, tæpum þremur árum eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota, sem það var selt. Arion banki færði þau rök fyrir því að fyrirtækið hefði ekki verið selt fyrr því að fjárhagsleg endurskipulagning Pennans hefði verið flóknari og tekið lengri tíma en menn gerðu ráð fyrir í upphafi.

Í gær var svo undirritaður samningur um sölu á Pennanum á Íslandi ehf. til hóps fjárfesta undir forystu Ingimars Jónssonar, Ólafs Stefáns Sveinssonar og Stefáns D. Franklín. Áður en þeir taka við fyrirtækinu þarf að bera kaupin undir Samkeppniseftirlitið.

Þremenningarnir tengdust Pennanum meðan Gunnar Dungal rak fyrirtækið. Ingimar var framkvæmdastjóri fyrirtækisins í mörg ár og Stefán var endurskoðandi Pennans í 20 ár. Ólafur er viðskiptafélagi Ingimars, en þeir reka fasteignafélögin Nafir og Summit. Nafir leigja Pennanum lagerhúsnæði í Kópavogi. Þeir eiga einnig Hótel Arctic Comfort í Reykjavík.

Ólafur segir að þeir hafi trú á Pennanum, sem sé þekkt vörumerki sem bjóði góða og fjölbreytta þjónustu.

Penninn rekur einnig húsgagnaverslun.
Penninn rekur einnig húsgagnaverslun.
Penninn rekur ritfangaverslanir.
Penninn rekur ritfangaverslanir. mbl.is/Valdís Þórðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK