Mikil styrking krónunnar

Gengi krónunnar hefur styrkst verulega á síðustu dögum og fór gengisvísitalan í gær niður í gildi sem hefur ekki sést síðan um miðjan janúar sl. Á aðeins fimm viðskiptadögum hefur gengi krónunnar styrkst um rúm 2,7%, en um miðja síðustu viku var gengisvísitalan 225 stig en sveiflast nú í kringum 219 stig.

Gengi krónunnar fór hæst á árinu í rúm 229 stig, sem var undir lok mars sl. og hefur gengi krónunnar þar með styrkst um 4,7% frá þeim tíma, að því er fram kemur í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Gengi krónunnar lækkaði á fyrstu mánuðum ársins og hafði í raun verið að lækka alveg frá því í nóvember í fyrra. Með hertum gjaldeyrishaftalögum í mars sl. sem tóku á nokkrum undanþágum í fyrri lögum var þeirri þróun snúið við. Ræðst gengisþróunin nú af gjaldeyrisflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta ásamt því litla fjármagnsflæði sem heimilt er innan haftanna.

Talsverð ársíðarsveifla hefur verið í þessu flæði sem tengist tekjum af erlendum ferðamönnum og hefur það gert það að verkum að gengi krónunnar hefur tilhneigingu til að styrkjast þegar líða tekur á sumarið og lækka síðan aftur þegar kemur fram á veturinn. Aðrir þættir ráða þó miklu um gengisþróunina einnig og þannig er sú styrking krónunnar sem verið hefur undanfarið ekki endilega að öllu leyti þessi árstíðarbundna sveifla. Hið sama má segja um gengislækkun krónunnar síðastliðinn vetur, en auk árstíðarbundinnar sveiflu þá mátti rekja þá lækkun til mikilla endurgreiðslna fyrirtækja og sveitarfélaga á erlendum lánum og þróunar viðskiptakjara á tímabilinu svo eitthvað sé nefnt,“ segir í Morgunkorni.

Styrking gagnvart Bandaríkjadal 3,5%

Krónan hefur verið að styrkjast gagnvart öllum helstu viðskiptamyntunum. Mest hefur styrkingin verið á gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal eða sem nemur um rúm 3,5% frá því um miðja síðustu viku, og stendur Bandaríkjadollar nú í rúmum 125 krónum og hefur ekki verið ódýrari fyrir landann í rúman mánuð. Gagnvart breska pundinu hefur gengi krónunnar styrkst um rúm 2,7% og gagnvart evrunni og þá um leið dönsku krónunni um rúm 2,5%. Er pundið nú á tæpar 197 krónur en svo lágt hefur það ekki farið í krónum talið síðan seint í febrúar sl. og evran nú á rúmar 158 krónur og hefur ekki verið ódýrari síðan snemma í janúar sl.

Svipaða sögu er að segja um norsku krónuna og hefur krónan styrkst um rúm 2,5% gagnvart henni frá því um miðja síðustu viku, en þessir fimm gjaldmiðlar sem getið er um hér á undan vega samanlagt rúmlega 80% í gengisvísitölunni.

Hefur víðtæk áhrif

„Ofangreind þróun á gengi krónunnar hefur víðtæk áhrif. Kaupmáttur landans á erlendri grundu eykst sem og kaupmáttur hans hér innanlands. Hefur gengisþróunin þannig áhrif á einkaneyslu, innflutning og þjónustujöfnuð utanríkisviðskipta. Vægi innfluttra vara er hátt í 40% í vísitölu neysluverðs, og hefur þróunin þar með mikil áhrif á verðbólguna sem er nú búin að hjaðna nokkuð frá upphafi árs.

Þá hefur þetta áhrif á samkeppnisstöðu þeirra innlendu fyrirtækja sem helst keppa við erlend fyrirtæki. Vegna hækkunar á nafngengi krónunnar hefur raungengi krónunnar hækkað undanfarið. Hækkunin hefur þó verið öllu meiri en hækkun nafngengisins þar sem verðbólga og launahækkanir hafa verið talsvert umfram það sem verið hefur í helstu viðskiptalöndunum,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK