Landsframleiðsla á mann leiðrétt fyrir kaupmætti í hverju landi fyrir sig var 10% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna hér á landi á síðastliðnu ári samkvæmt tölum sem hagstofa Evrópusambandsins birti í morgun. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
„Er þessi mælikvarði oft notaður á velferð og virðist hún vera nokkuð viðunandi í þessum samanburði þrátt fyrir allt sem hér hefur gengið á í efnahagsmálum á undanförnum árum. En þetta er ekki eini mælikvarðinn á velferð. Annar slíkur mælikvarði sem endurspeglar sennilega betur velferð heimilanna í hverju landi fyrir sig er neysla á mann leiðrétt fyrir kaupmætti. Á þann mælikvarða var Ísland með neyslu á mann sem var 7% yfir meðaltali ESB landanna á síðastliðnu ári samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins.
Það land sem kemur einna best út úr þessum samanburði er Noregur. Var landsframleiðsla á mann leiðrétt fyrir kaupmætti 89% yfir meðaltali ESB ríkjanna á síðastliðnu ári. Þarf það svo sem ekki að koma á óvart en þannig hefur það verið undanfarin ár. Ákveðinn fyrirvara þarf þó að hafa á tölunum þar sem olíutekjur eru svo stór hluti af landsframleiðslu Noregs og er þeim tekjum að haldið að miklu leyti fyrir utan hagkerfið. Engu að síður dylst það engum að velferðin er mikil þar í landi og er það ástæða þess m.a. af hverju jafn mikið af Íslendingum hafa flust til Noregs á undanförnum árum og raun ber vitni,“ segir í Morgunkorni.
Austur-Evrópuríkin eru neðst í þessum samanburði. Þannig var landsframleiðsla á mann rétt um helmingur ESB meðaltalsins í Búlgaríu, Rúmeníu, Lettlandi og Litháen. Svipaða sögu segir neysla á mann leiðrétt með kaupmætti.
Landsframleiðsla Íslands var einnig 10% yfir meðaltali ESB landanna árið 2010. Staða hagkerfisins tók þannig ekki breytingum á milli áranna 2010 og 2011 á þann mælikvarða. Árið 2009 var landsframleiðslan hér hins vegar 20% yfir meðaltali ESB landanna og hefur skiljanlega lækkað nokkuð frá árunum rétt fyrir hrun.