Bráðabirgðatölur yfir landsframleiðslu fyrir árið 2011 benda til þess að eftir boðaföll síðustu ára, er Ísland enn í ríkari helmingi Evrópulanda eða nánar tiltekið í 12. sætinu. Þetta kemur fram í skýrslu frá greiningardeild Arion banka.
Landsframleiðslan á mann á Íslandi var 10% meiri árið 2011 en að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum og litlu meiri en á evrusvæðinu. Ísland kemur þó ekki vel út þegar við berum okkur saman við önnur lönd á Norðurlöndum.
Greinileg skipting er á milli austur- og vesturhluta álfunnar, þar sem löndin undir meðaltali eru yfirleitt austanmegin. Þess má þó geta að Spánn og Portúgal voru með landsframleiðslu undir meðallagi.
Methafi álfunnar er smáríkið Lúxemborg, þótt taka verði tölum þaðan með verulegum fyrirvara. Ástæðan fyrir því er sú að á annað hundrað þúsund manns ferðast yfir landamærin til að vinna í Lúxemborg, án þess þó að teljast íbúar landsins.
Tvö lönd eru helmingi verr stödd en Evrópumeðaltalið. Þau eru Rúmenía og Búlgaría en þau skipa tvö neðstu sætin.
Þótt Ísland sé yfir meðallagi, er staðan enn að versna á mælikvarða vergrar landsframleiðslu, í hlutfalli við Evrópumeðaltalið. Þegar best lét var landið það 9. ríkasta í álfunni með 24% meiri VLF á mann en meðalland Evrópusambandsins. Þrátt fyrir að staðan versni hlutfallslega á milli áranna 2010 og 2011, færist Ísland þó upp á listanum, úr 13. sæti í það 12.
Á mælikvarða raunverulegrar neyslu heimila reis landið þó á milli áranna 2011 og 2010 en neyslan náði botni eftir hrun árið 2010. Enn er þó langt í að Ísland nái aftur fyrri stalli eins og var árið 2008, þegar Íslendingar sátu í 5. sæti í Evrópu yfir kjör heimila. Þá neytti meðalheimilið á Íslandi 22% meira en meðalheimilið í Evrópusambandinu.