Heimsmarkaðsverð á hráolíu heldur áfram að lækka og er komið niður fyrir 80 dollara tunnan [þ.e. crude olía]. Verðlækkunin það sem af er þessum mánuði er 9,2% en frá 1. maí er verðlækkunin rúmlega 25%.
Verð á hráolíu hefur ekki verið lægra í átta mánuði. Meginástæðan fyrir þessari miklu lækkun er samdráttur í efnahagslífi heimsins. Framleiðsla á olíu er einnig mikil og er raunar meiri en eftirspurnin.
Það er ekki nýtt að verð á hráolíu sveiflist í takt við horfur í efnahagsmálum heimsins. Sumarið 2008 fór verð á olíutunnu upp í 144 dollara, en í lok þess árs fór það niður fyrir 40 dollara.
Eins og flestir vita er ekki sérlega bjart yfir efnahagslífi margra landa í Evrópu. Efnahagsbatinn í Bandaríkjunum er sömuleiðis hægur og mun hægari en stjórnvöld þar í landi voru að vonast eftir. Það hefur einnig dregið verulega úr hagvexti í Kína. Þetta þýðir að eftirspurn eftir olíu er minni en reiknað var með og það hefur áhrif á verðið. Markaðurinn metur það svo að ekki sé von á miklum bata alveg á næstunni.
Verð á bensíni hér heima hefur lækkað, en ýmsir eru á því að lækkunin mætti vera meiri, sérstaklega ef horft er til þess að gengi dollars hefur verið að lækka. Dollarinn hækkaði í verði í maí, en hefur lækkað í júní og er núna á svipuðu róli og hann var 1. maí.
Þann 1. maí sl. var algengt verð á 95 oktana bensínlítra 263,70 kr. Í dag algengt verð á bensíni 243,50 kr. Lækkunin er rúmlega 20 krónur. Þetta er ekki nema 7,7% lækkun. Hafa þarf í huga að vegna skattlagningar á olíu og bensíni mun innanlandsverð aldrei lækka um sama hlutfall og lækkun hráolíuverðs á heimsmarkaði.
Lækkun á bensíni og olíu stuðlar að lækkun verðbólgu. Liðurinn bensín og olíur eru rúmlega 0,6% af neysluverðsvísitölu. Til samanburðar má nefna að matur er um 1,4%. Lækkun bensínsverð skiptir því umtalsverðu máli fyrir vísitöluna og þar með skuldir heimilanna en stærstur hluti þeirra er verðtryggður.
Umferð um vegi landsins dróst saman eftir hrun. Án efa á hátt bensínverð einhvern þátt í því, en samdráttur í kaupmætti og erfiður fjárhagur margra heimila skiptir hér einnig máli. Mælingar Vegagerðarinnar benda til þess að akstur sé að aukast á ný. Þetta skiptir verulegu máli fyrir ferðaþjónustuna, en margir í ferðaþjónustu á landsbyggðinni hafa kvartað undan því að Íslendingar hafi dregið úr ferðalögum.