Forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, auk ráðherra frá Frakklandi og öðrum ríkjum sambandsins hefur sagt að stefna verði að því að auka vald sambandsins yfir fjárhag einstakra ríkja þannig að fullveldi þeirra fjárlagagerð verði skert.
Á fundi Evrópusambandsleiðtoga seinna í vikunni verður rætt um fjárhagsvanda ríkjanna í kjölfar beiðna Spánar og Kýpur um fjárhagsaðstoð. Barroso auk Evrópuleiðtoganna Herman van Rompuy, Jean-Claude Juncker og Mario Draghi hafa lagt fram drög um það sem kallað er skref næsta áratugar.
Áætlunin gengur út á að gera miðstýrðara fjármálakerfi í Evrópu þar sem sambandið getur gripið inn í fjárlagagerð ríkja en í staðin liggi hin endanlega fjárhagslega ábyrgð hjá Evrópusambandinu sjálfu. Evrópskir bankar yrðu einnig allir undir sömu eftirlitsstofnuninni og útgáfu á evruskuldabréfum með sameiginlegri ábyrgð allra ríkja hæfist.
Miðað við viðbrögð markaða í morgun og í gær er ekki gert ráð fyrir að mikil sátt náist um þetta málefni á komandi fundi. Barroso sagði að þó ekki sé gert ráð fyrir að það þurfi að gera breytingu á sáttamála Evrópusambandsins til skamms tíma myndi þetta til lengri tíma kalla á slíka breytingu.