Ríkisútvarpið og Exton hafa undirritað rammasamning þess efnis að Exton útvegi RÚV allar nýjar sjónvarpslinsur í fréttasendingar og þáttagerð. Um er að ræða samning upp á 530 þúsund evrur eða ríflega áttatíu milljónir króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
RÚV stefnir á að framleiða og senda út allt eigið efni í háskerpu og er samningurinn liður í þeirri þróun. Að undangengnu útboði Ríkiskaupa var tilboð Exton talið hagstæðast. Samningurinn er til þriggja ára og tekur til allra háskerpulinsa sem RÚV þarf á að halda til fréttasendinga og þáttagerðar.