Hár lántökukostnaður að sliga Spán

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy.
Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy. AFP

Spænska ríkið getur ekki fjármagnað sig á þeim kjörum sem bjóðast um þessar mundir, að sögn forsætisráðherra landsins, Mariano Rajoy. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Seðlabanka Spánar hefur samdrátturinn aukist á öðrum ársfjórðungi.

Ef Spánn, sem er fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins, er útilokað af lánamarkaði þá gæti það þýtt að ríkið þyrfti á allsherjaraðstoð að halda frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það gæti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir evrusvæðið.

Spánn sótti formlega um allt að 100 milljarða evra aðstoð fyrir banka landsins í fyrradag. Þann sama dag sendu stjórnvöld á Kýpur frá sér yfirlýsingu þar sem greint er frá því að beðið yrði um formlega aðstoð en talið er að Kýpur þurfi á bilinu 6-10 milljarða evra til að koma bankakerfi landsins til bjargar.

Rajoy segir að það sem mestu máli skipti sé fjármögnun Spánar og ljóst sé að landið geti ekki fjármagnað sig lengi á þeim kjörum sem í boði eru. Þetta kom fram í máli Rajoy á þingi í morgun en á morgun hefst tveggja daga ráðstefna leiðtoga Evrópusambandsríkjanna í Brussel en þar verður helsta umræðuefnið efnahagsástandið í álfunni. Álagið á spænsk ríkisskuldabréf til tíu ára er nú 6,8%.

Staða Spánar veldur miklum áhyggjum og óttast margir að landinu takist ekki ætlunarverk sitt, að draga úr fjárlagahalla svo um munar. Hann var 8,9% í fyrra en stefnt er að því að hann verði 5,3% í ár og 3% á því næsta. Atvinnuleysi mælist nú 24,4% á Spáni og er hvergi jafn mikið í iðnvæddu ríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK