Er rafmagnssæstrengur raunhæfur?

Ísland hefur góða möguleika á að selja endurnýjanlega orku til annarra Evrópuríkja á komandi árum vegna tilskipunar Evrópusambandsins þess efnis að endurnýjanleg orka skuli vera 20% af heildar orkunotkun innan sambandsins fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í umfjöllun markaðspunkta greiningardeildar Arion banka í dag. 

Hagstofa Evrópusambandsins gaf í vikunni út skýrslu um stöðu mála í lok árs 2010 og sést þar að mörg lönd eiga enn töluvert í land með að ná markmiðunum, en þau eru mismunandi eftir löndum, frá 10% upp í tæplega 70%.

Greiningardeildin nefnir sérstaklega Bretland í þessu ljósi, en gert er ráð fyrir að 15% af heildarorkunotkun þess komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum 2020. Enn vantar tæp 12% upp á að það markmið náist og standa þeir slakast að vígi Evrópusambandslandanna að þessu markmiði, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Sæstrengur?

Í þessu sambandi er bent á möguleika sem áður hefur skotið upp kollinum um lagningu rafmagnssæstrengs til Bretlands eða meginlands Evrópu. Sá stengur yrði um 1200 til 2000 km að lengd sem yrði tvöfalt til þrefalt lengri en lengsti rafmagnssæstrengur sem lagður hefur verið í sjó er í dag.

Í samtali mbl.is við Ketil Sigurjónsson, sem mikið hefur skrifað um orkumál, segir hann að lagningu strengs sem þessa fylgi töluvert af óvissuþáttum. Þegar rafmagn sé flutt um langar vegalengdir tapist alltaf eitthvert magn rafmagns og ef miðað sé við NORNED strenginn sem er milli Noregs og Hollands sé tapið þar um 6% af 580 km vegalengd. Með nýrri tækni sé þó væntanlega hægt að ná þessu niður í um „4-5% af hverjum 1000 km“. Því megi gera ráð fyrir um 6-10% afföllum eftir því hvert strengurinn sé lagður og hver verði spennan á honum.

Á móti kemur að verð á rafmagni er töluvert hærra í Bretlandi og á meginlandi Evrópu og uppruninn skiptir líka máli. „Ef menn ætla að standa við þessi markmið sín í Evrópusambandinu, þá þýðir það að þeir sem framleiða græna orku hafa enn betri aðgang að markaðinum til að selja sína orku.“ Greiningardeildin tekur undir þetta og telur litlar líkur á að verð á endurnýjanlegri orku muni gera annað en að hækka í Evrópu á komandi árum.

Raunhæf framkvæmd?

Um það hvort Ketill telji þetta raunhæft markmið segir hann: „Ef fyrirtækið [Landsvirkjun] vill auka arðsemi sína, þ.e. hækka orkuverð, þá er þetta mjög góð leið til þess ef þetta er tæknilega gerlegt.“ Hann tekur reyndar fram að væntanlega þyrfti strengur sem þessi að vera allavega í kringum 700 MW og til þess að fá slíka orku þyrfti að auka raforkuframleiðslu á Íslandi umtalsvert. 

Annað atriði sem gæti skipt miklu máli er áhættan vegna hugsanlegra bilana og gæti verið stór þáttur í ákvörðun um lagningu. Mesta dýpi sem strengurinn færi á væri um 1000 m og viðgerð gæti því tekið töluverðan tíma. Tekjutap vegna þess gæti verið stórkostlegt og því þyrfti væntanlega einhvern sem er viljugur til að ábyrgjast þennan möguleika.

Í ársskýrslu Landsvirkjunar frá 2010 kemur fram að verið sé að skoða lagningu strengs en bæði forskoðun verkefnisins og möguleg framkvæmd ef að því kemur taki mikinn tíma og ef af verður væri strengurinn í fyrsta lagi kominn í notkun árið 2020.

Það er því háð tæknilegum forsendum, pólitískum vilja til virkjunar, fjármögnunar og því hver sé tilbúinn að taka ábyrgð vegna hugsanlegra bilana á slíkum streng sem ekki hefur komið mikil reynsla á hingað til. Arðsemi gæti hinsvegar orðið töluverð og pólitískur vilji í Evrópu er mikill til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK