Miklar hækkanir hafa verið á hlutabréfamörkuðum í morgun eftir að leiðtogar Evrópusambandsríkjanna samþykktu björgunarpakka fyrir evruríkin sem metinn er á um 120 milljarða evra í gærkvöldi. Eins hefur evran styrkst gagnvart Bandaríkjadal.
Mest hafa hlutabréfavísitölur á Spáni og Ítalíu hækkað, Ibex-vísitalan í Madríd hefur hækkað um 3,05% og FTSE Mib vísitalan í Mílanó hefur hækkað um 2,77%.
Í Lundúnum hefur FTSE-vísitalan hækkað um 1,13%, CAC í París um 2,33% og DAX í Frankfurt hefur hækkað um 2,39%.
Í Stokkhólmi nemur hækkunin 2,28% og í Asíu hækkuðu hlutabréf töluvert. Hang Seng-vísitalan í Hong Kong hækkaði um 2,19% og Nikkei hækkaði um 1,50% í Tókýó.
Eins hefur álag á skuldabréf ítalska og spænska ríkisins til tíu ára lækkað töluvert.