Halli var á vöruskiptum við útlönd í maí og nam hann 1,1 milljarði króna. Í maí í fyrra voru vöruskiptin hagstæð um 5,9 milljarða króna. Fyrstu fimm mánuði ársins voru vöruskiptin hagstæð um 26,9 milljarða en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 39,6 milljarða. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 12,7 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.
Í maímánuði voru fluttar út vörur fyrir 55,4 milljarða króna og inn fyrir 56,5 milljarða króna fob (60,6 milljarða króna cif).
Fyrstu fimm mánuðina 2012 voru fluttar út vörur fyrir 261,7 milljarða króna en inn fyrir 234,8 milljarða króna fob (252,6 milljarða króna cif).
Verðmæti iðnaðarvara minnkar en sjávarafurða eykst
Fyrstu fimm mánuði ársins 2012 var verðmæti vöruútflutnings 11,9 milljörðum eða 4,8% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 53,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,2% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 42,6% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 24,1% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í útflutningi sjávarafurða, aðallega á ferskum fiski, fiskimjöli og heilum frystum fiski.
Innflutningur jókst um 11,7%
Fyrstu fimm mánuði ársins 2012 var verðmæti vöruinnflutnings 24,6 milljörðum eða 11,7% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Aukning á verðmæti innflutnings varð mest í flutningatækjum og eldsneyti.