Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum skilaði 1,8 milljarði í methagnað á síðasta ári og jukust tekjur um 12% frá fyrra ári. Hagstæðar aðstæður á erlendum mörkuðum og gott verð á helstu afurðum voru félaginu hagstæð.
Stjórnarformaðurinn Guðmundur Örn Gunnarsson sagði á aðalfundi félagsins í gær að þrátt fyrir gott ár væru blikur á lofti með afkomu og framtíðarrekstur félagsins. Bæri þar helst að nefna lækkandi verð á afurðum og veiðileyfisgjöld sem hafa hækkað.
Á yfirstandandi fiskveiðitímabili mun Vinnslustöðin greiða 190 milljónir króna í veiðileyfisgjöld og áætlar að greiða um 820 milljónir á því næsta. Á næstu 3-4 árum mun þess tala fara upp í 1,5 milljarð og verða stór hluti af hagnaði félagsins.
Eins og fram hefur komið í fréttum í gær sagði Vinnslustöðin upp 41 starfsmanni til að draga úr rekstrarkostnaði til að koma til móts við hækkað veiðileyfisgjald og helmings skerðingu aflaheimilda í makríl fyrir Gandí VE á komandi fiskveiðitímabili.
Framlegð Vinnslustöðvarinnar jókst um 18% milli ára og voru heildarskuldbindingar 12,6 milljarðar í lok árs 2011. Eiginfjárhlutfall var 36% og voru greiddar 321 milljónir í tekjuskatt. Arðgreiðslur voru ákveðnar 30% af nafnvirði, samtals 830 milljónir sem er 13% ávöxtun af því fé sem hluthafar hafa lagt til félagsins.
Á fundinum var einnig tekið fram að fyrirtækið væri í fullum skilum með skuldbindingar og hefði ekki fengið neitt afskrifað.