Unnur Gunnarsdóttir, sem verið hefur settur forstjóri Fjármálaeftirlitsins frá 1. mars síðastliðnum, hefur verið ráðin forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Unnur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í lögum bæði í Englandi og Kanada. Hún gegndi áður starfi yfirlögfræðings Fjármálaeftirlitsins.
Fram kemur á vef FME að Unnur hefur víðtæka reynslu af störfum við fjármálatengd verkefni, opinbera stjórnsýslu og í dómskerfinu. Hún starfaði meðal annars í sjö ár hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og í fimm ár sem sérfræðingur í fjármálaþjónustu hjá EFTA skrifstofunni í Brussel. Þá var hún framkvæmdastjóri Fjölgreiðslumiðlunar í tvö ár. Innan opinberrar stjórnsýslu hefur Unnur meðal annars reynslu sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu í sjö ár og sem settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Unnur var valin úr hópi tíu umsækjenda að undangengnu ítarlegu ráðningarferli.