Seðlabanki Ítalíu spáir því að um 2% samdráttur verði í efnahagslífi Ítalíu á þessu ári. Ignazio Visco seðlabankastjóri segir Ítali hafa þörf fyrir nýja sýn á vandann ef þeim eigi að takast að ráða við skuldakreppuna.
Visco segir að samdrátturinn á Ítalíu verði verulegur á þessu ári. Hann segist hins vegar ekki telja að ástandið eigi eftir að versna frekar. Ef skuldatryggingarálag lækki muni staðan fara að batna í lok ársins.
Ítalía er eitt skuldugasta ríki Evrópu og mun skuldugra en Spánn. Viðvarandi halli hefur verið á ríkissjóði í mörg ár.