Verð á Brent-Norðursjávarolíu fór niður fyrir 100 Bandaríkjadali tunnan á olíumarkaði í morgun eftir að norsk stjórnvöld settu neyðarlög á verkfall starfsmanna í olíuiðnaði.
Lækkaði verð á tunnunni um 1,75 dali í 98,57 dali en í New York lækkaði verð á hráolíu um 97 sent í 85,02 dali tunnan.
Norsk stjórnvöld beittu seint í gærkvöldi neyðarheimild til þess að binda enda á 16 daga verkfall og neyða starfsmenn á olíu- og gaspöllum til að hefja vinnu á ný.
Framleiðslu átti að stöðva á miðnætti í nótt og hugðust fyrirtæki setja verkbann á starfsmenn í deilu um eftirlaun. „Ég varð að taka þessa ákvörðun til að vernda grundvallarhagsmuni Noregs,“ sagði Hanne Bjurstrøm, atvinnumálaráðherra Noregs, í gærkvöldi.
Verkbannið hefði þýtt að 6.500 manns hefðu verið útilokaðir frá vinnu. Stöðvun afhendingar á gasi og olíu hefði kostað 1,8 milljarða norskra króna á dag, eða 38 milljarða íslenskra króna.