„Við sáum stuttu eftir hrun að þá var mikill samdráttur í verslun, sérstaklega í sérverslun. En undanfarið eitt ár erum við farin að sjá töluverðan vöxt í sumum sérverslunum, fataverslun er þar reyndar undanskilin,“ segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Hann segir einkaneyslu hafa aukist sem skili sér í verslun að einhverju leyti og ýmsar sérverslanir geti nú búist við veltuaukningu. Neyslubreyting hafi orðið í samfélaginu og því geti nýjar tegundir verslana orðið til. Emil segir batamerki sjást en að samdrátturinn hafi ekki haft eins stór áhrif á dagvöruverslun þar sem allir þurfi að borða og kaupa aðrar nauðsynjar.
Húsgagnaverslun hafi hins vegar dregist saman um 70% í stuttan tíma en sé farin að rétta aftur úr kútnum. Sama hafi verið með áfengis- og raftækjaverslun. „Raftæki á heimilum fara að ganga úr sér og fólk þarf að endurnýja. Fólk er kannski ekki mikið að fjárfesta en er að verja peningunum af því að þeir brenna upp í bankanum því það eru neikvæðir raunvextir og þýðir ekki að geyma þá þar,“ segir Emil. Hann segir fólk frekar vilja styrkja innviði heimilisins, endurnýja og bæta.