Evrópskir fjármálamarkaðir hafa leitað niður á við í dag og hefur evran ekki verið lægri gagnvart Bandaríkjadal í tvö ár. Er óróinn á mörkuðum meðal annars rakinn til skuldabréfaútboðs spænska ríkisins en ávöxtunarkrafan á tíu ára bréf er rúm 7%.
Ibex 35 hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 2,14% það sem er degi í kauphöllinni í Madríd.
Í Lundúnum hefur FTSE vísitalan lækkað um 1,04%, DAX í Frankfurt hefur lækkað um 1,01% og CAC í París hefur lækkað um 0,49%. Á Ítalíu hefur FTSE Mib vísitalan lækkað um 1,53% og virðist sem fjárfestar hafi ekki séð ástæðu til þess að fagna vel heppnuðu skuldabréfaútboði ríkisins.
Evran fór í dag niður í 1,2170 dali og hefur ekki verið lægri gagnvart Bandaríkjadal síðan 30. júní árið 2010.