Mikið í kortunum hjá Belgingi

Ólafur Rögnvaldsson framkvæmdastjóri Belgings
Ólafur Rögnvaldsson framkvæmdastjóri Belgings Styrmir Kári

Það hefur ekki farið mikið fyrir veðurfyrirtækinu Belgingi, en á síðustu árum hefur mikil þróunarvinna átt sér stað og eru bundnar vonir við að strax í haust muni stóra verkefnið, SARWeather, fara í að skila tekjum. Ólafur Rögnvaldsson er framkvæmdastjóri, stofnandi og einn eiganda félagsins og hefur staðið í brúnni frá stofnun 2001 og fylgst með fyrirtækinu vaxa. Í gamansömum tón segir hann að nú styttist loks í það að fyrirtækið sigri heiminn. Í viðtali við Mbl fór hann yfir sögu félagsins, verkefnin og hvert fyrirtækið stefnir með þá sérhæfðu vöru sem það býður upp á.

Í grunninn heitir fyrirtækið Reiknistofa í veðurfræði, en hefur hingað til verið þekktast fyrir að halda úti vefnum Belgingur. Þar eru spár fyrir Ísland í 3 og 9 km nákvæmni settar fram á myndrænan hátt, en með nýja SARWeather (Search And Rescue Weather) kerfinu gefst notendum kostur á að reikna mjög nákvæmar staðbundnar spár sem ná yfir skemmri og lengri tímabil. Auk þess gefur fyrirtækið út klasaspár sem eru líkindaspár yfir veðurfar næstu 15 daga og heldur úti veðurfarslegu gagnatorgi í samvinnu við Data Market og Veðurstofu Íslands þar sem almenningi gefst kostur á að nálgast mikið magn veður upplýsinga á grafísku formi.

11 ára saga

Reiknistofa í veðurfræði var stofnuð 2001 af veðurfræðingunum Ólafi Rögnvaldssyni og Haraldi Ólafssyni. Ólafur segir að upphaflega hafi hugmyndin ekki verið að fara í þá miklu þróunarvinnu sem nú hefur átt sér stað heldur ætlaði hann að koma doktorsstyrk sem hann hafði fengið yfir í sjálfstætt félag.

Fyrirtækið byrjaði að reikna veðurspár fyrir Ísland árið 2003, í framhaldi af því var vefsíðan Belgingur sett á laggirnar og síðustu ár hefur verið formlegt samstarf við Veðurstofu Íslands um reikninga á veðurspám. Síðar dró Haraldur sig úr rekstrinum og María Edwardsdóttir og Sigurjón Sindrason komu inn. Í dag eru 7 starfsmenn hjá fyrirtækinu og er ljóst að doktorsverkefnið hefur heldur betur undið upp á sig, en Ólafur gerir einmitt ráð fyrir að klára loksins gráðuna seinna á þessu ári.

Mismunandi reikniaðferðir og gagnagrunnar

Þótt Belgingur og Veðurstofan séu í samstarfi sker Belgingur sig nokkuð frá þeirri síðarnefndu varðandi veðurgrunn sem er notaður. Veðurstofan notar upplýsingar frá evrópsku reiknimiðstöðinni meðan Belgingur notar bæði þá evrópsku og bandarísku.

Margir Íslendingar hafa notað spár frá norsku veðurstofunni á yr.no, en munurinn á íslensku spánum og spám norsku veðurstofunnar er að þær íslensku eru reiknaðar á mun þéttriðnara reiknineti. Í þeim er tekið meira mið af áhrifum landslags, „þegar eitthvert alvöruveður er í gangi þá fara fjöllin að spila stærri rullu. Geta bæði myndað skjól og magnað upp vinda. Þau stýra einnig úrkomudreifingu. Þessi fínu smáatriði koma síður fram í grófari reikninetum eins og hjá YR,“ segir Ólafur

SARWeather

Að sögn Ólafs er áfram gert ráð fyrir ókeypis þjónustu vegna Belgings, en horft er til SARWeather verkefnisins, sem m.a. er stutt af Tækniþróunarsjóði, sem megintekjulindar  fyrirtækisins í framtíðinni. Það kerfi hefur verið í þróun síðustu 4 árin og er gert ráð fyrir að það fari formlega í loftið í haust.

Kerfið er upphaflega hannað fyrir björgunarsveitir og leitar- og almannavarnaraðila en býður þó upp á mun meiri möguleika og breiðari hóp viðskiptavina. Ólafur lýsir kerfinu sem einföldu þar sem upplýsingar komi skilmerkilega fram. Þar er farið inn á kerfið og fengið upp kort sem er smellt á, þú [notandinn] velur hversu stórt svæði, mikla reikniupplausn og spá langt fram í tímann þú vilt fá og svo er smellt á takka.“ Við það fæst mjög nákvæmt veðurspákort með allt niður í 1 km reikninákvæmni.

Kort með þessa nákvæmni geta verið mjög mikilvæg fyrir björgunarsveitir þar sem skiptir máli hvort og hvernig leitir eru skipulagðar, hvort borgi sig að halda mannskap inni í stuttan tíma meðan mestu veðurhörkurnar ganga yfir og hafa þá betur tilbúinn hóp til taks þegar veður skánar örlítið. Þetta getur einnig skipt miklu varðandi að spara kostnað með leit í þyrlu o.s.frv., enda nota Landsbjörg, Neyðarlínan og Almannavarnir þetta kerfi nú þegar.

Belgingur hefur komið sér upp góðum samböndum í þessum veðurgeira og er í samstarfshópi á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þessi sambönd leiddu t.d. til þess að þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí 2010 var Belgingur fenginn til að reikna veðurspár fyrir svæðið sem notaðar voru af íslenska björgunarhópnum. Ólafur segir að þótt kerfið sé fyrst og fremst hannað með þetta notagildi í huga séu fleiri aðilar sem hafi sýnt verkefninu áhuga og séu þeir t.d. komnir í samstarf við hollenskt vindorkufyrirtæki sem þarfnast nákvæmra spáa til að stýra raforkuframleiðslunni á sem hagkvæmastan máta inn á dreifikerfið

Kerfið enn opið öllum

Kerfið er í dag í tilraunakeyrslu, en hver sem er getur skráð sig inn á síðunni og prufað sig áfram og gert sínar eigin nákvæmu spár. Þrátt fyrir að Belgingur sé með aðgang að gífurlega öflugum reikniþjónum hjá Amazon í Bandaríkjunum og GreenQloud á Íslandi tekur hver útreikningur þó nokkurn tíma.

Til að mynda segir Ólafur að sólarhringsspá með mestu nákvæmni fyrir Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur geti tekið allt að 45 mínútur, en hægt sé að minnka svæðin og nákvæmnina og þá styttist reiknitíminn í samræmi við það. Það er því um að gera fyrir lesendur sem hyggjast ferðast í sumar eða ganga á hálendinu að skoða nákvæma veðurspá fyrir væntanlega viðkomustaði.

Meira en SARWeather í kortunum

Að sögn Ólafs eru fleiri verkefni í gangi hjá Belgingi þó að SARWeather sé þar langstærst. Þar ber að nefna Klasaspár sem eru líkindaspár reiknaðar 15 daga fram í tímann með 21 mismunandi reikniaðferð. Landsvirkjun notar þessar spár meðal annars við að spá fyrir um vatnsmagn í miðlunarlónum.

Belgingur hefur einnig haldið úti veðurfarslegur gagnatorgi þar sem almenningur getur á auðveldan hátt flett upp hinum ýmsu upplýsingum um veðurfar hérlendis og fengið í tölum eða gröfum. Síðast ber svo að nefna verkefni sem Ólafur segir að beinist að notkun veðurgagna frá sjálfvirkum smáflugvélum til að bæta skammtímaspár, en það sé þó ekki fullklárað ennþá. Það er því ljóst að nóg er um að vera hjá Belgingi á komandi misserum.

Hér má sjá vindaspá SARWeather fyrir Laugaveginn á hádegi á …
Hér má sjá vindaspá SARWeather fyrir Laugaveginn á hádegi á morgun, föstudaginn 13. júlí. SARWeather
Úrkomuspá fyrir Hvannadalshnjúk í febrúar síðastliðnum
Úrkomuspá fyrir Hvannadalshnjúk í febrúar síðastliðnum SARWeather
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK