Huang Nubo er fjallgöngugarpur og skáld, og telur þá eiginleika sína henta kaupsýslumönnum vel. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun blaðsins China Daily um hann í dag.
Þar kemur fram að hinn 56 ára gamli stjórnarformaður Zhongkun Investment Group bíði nú þess að skrifa undir lokasamninginn til þess að hann geti leigt Grímsstaði á Fjöllum. Á sama tíma gangi síðasta fjárfestingu hans í Yunnan-héraði Kína vel. Samtíðarmenn hans segja að Huang feli aldrei tilfinningar sínar, heldur leyfi þeim að streyma fram eins og sönnu skáldi sæmir.
Wei Xiaoan, hagfræðingur segir Huang sjaldgæfa blanda skáldlegrar rómantíkur og ágengni kaupmanns og þykir mjög kænn.
Huang sjálfur segir hins vegar að fyrir sjö árum síðan hafi verið hlegið að honum á viðskiptafundi fyrir ljóðlistina.
Huang segir að það sé ljóðskáldið í sér sem skilji hann frá öðrum athafnamönnum og gefi honum innsýn í möguleika sem fari framhjá öðrum. Hann hefur ort fjölda ljóða undir skáldanafni sínu, Luo Ying síðan hann var 13 ára en ljóð hans hafa verið gefin út í nokkrum ljóðasöfnum og þýdd á erlend tungumál.
Hann segir að skáldagáfa sín hafi opnað ýmsar dyr á Íslandi, þar sem íslenska þjóðin sé svo hneigð til bókmennta að meira að segja lögreglumenn og fangar yrki. Segir í umfjölluninni að íslenska þjóðin hugsi fyrst og fremst til hans sem skálds.
Í umfjölluninni kemur fram að skáldlegt auga Huangs hafi oft numið tækifæri á undan öðrum. Þannig hafi hann árið 1997 keypt niðurnítt þorp við rætur Huangshan-fjalls, sem í dag sé á lista Sameinuðu þjóðanna yfir heimsminjar, og þénar fyrirtæki Nubos 4,7 milljónir Bandaríkjadala á ári á þeirri fjárfestingu. Þá hafi hann byrjað að rækta vínekrur áður en nokkur markaður fyrir léttvín hafði skapast í Kína. Huang horfi gjarnan fram á veg en sé ekki umhugað um skammtímagróða.
Í umfjölluninni segir að faðir Nubos hafi látið lífið í menningarbyltingunni og að hungur og mótlæti hafi verið stöðugir félagar hans í æsku. Erfið æska hans hafi mótað hann. Huang lærði kínverskar bókmenntir í háskólanum í Peking. Eftir útskrift gekk hann í almannatengsladeild kínverska kommúnistaflokksins og þótti lofa góðu sem stjórnmálamaður, þegar hann ákvað að hætta og reyna fyrir sér í bókaútgáfu.
Huang þótti vera strangur yfirmaður sem lagði hart að sér og öðrum. Það lagaðist bæði með árunum og eftir að hann hóf að stunda fjallgöngur. „Ég lærði þolinmæði og öðlaðist innri frið á því að sigrast á þeim áskorunum,“ segir Huang. Á árunum 2008 til 2011 kleif hann sjö hæstu tinda heims og fór á bæði norður- og suðurpólinn.
Í umfjölluninni kemur fram gagnrýni á að hugsanlega sé Huang Nubo að dreifa kröftum sínum um of, þar sem hann sé nýbúinn að hefja stórar framkvæmdir í Pu'er-héraði í Kína, og sé nú að fara að hefja framkvæmdir á Íslandi.
Huang blæs á þá gagnrýni og segist vita hvað hann sé að gera. Hann telji að báðar fjárfestingar geti hjálpað hvor annarri og sér fyrir sér að ferðamenn verði farnir að streyma til Grímsstaða eftir fimm ár.
Umfjöllun China Daily um Huang Nubo lýkur á þessum orðum: „Rómantík hans teygir sig einnig í áætlanir hans fyrir Ísland: Hann er að meta möguleikann á því að selja vín sitt til landsins í skiptum fyrir hinar „ógleymandi gómsætu“ rækjur sem finnast þar. „En ég mun bíða eftir fréttum frá Íslendingum,“ segir Huang. „Ég hef heyrt að þeir séu í fúlustu alvöru að staðreyna að engir álfar eigi heima undir landinu sem ég er að fara að leigja.““