Norðurflug svarar vaxandi eftirspurn eftir þyrluþjónustu

Guðjón Skarphéðinsson þyrluflugmaður Norðurflugs á flötunum við Geysi.
Guðjón Skarphéðinsson þyrluflugmaður Norðurflugs á flötunum við Geysi.

Norðurflug ehf. býður nú upp á fjölbreytt þyrluflug um allt Ísland og út fyrir landsteinana ef því er að skipta. Félagið rekur þrjár þyrlur, sú stærsta er af gerðinni Dauphin og tekur allt að átta farþega. Hinar þyrlurnar taka fjóra og fimm farþega.

Að sögn Birgis Ómars Haraldssonar, framkvæmdastjóra Norðurflugs, hefur eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins farið vaxandi.

„Ef menn eru að tala um að það þurfi að auka virðisaukann í ferðaþjónustu á Íslandi þá held ég að Norðurflug sé gott dæmi um félag sem gerir slíkt,“ sagði Birgir Ómar og bætti við. „Við höfum víðtæka þekkingu á landinu og áratuga reynslu af flugi og flugrekstri á Íslandi og Grænlandi þar sem Norðurflug hefur  til að mynda unnið að verkefnum við rannsóknavinnu fyrir námavinnslu.“

Þrískipt þjónusta

Segja má að verkefni Norðurflugs skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi er það farþegaflug sem Birgir Ómar segir að njóti sívaxandi vinsælda. Boðið er upp á mikinn fjölda ferða auk sérferða sem eru vinsælar og má þar nefna ferðir er tengjast eldgosum, nokkuð sem virðist aldrei lát á á Íslandi.

Í annan stað býður Norðurflug upp á verkefnaflug og er það einkum tengt kvikmynda- og auglýsingagerð. Þar segir Birgir að væri einnig spennandi vaxtabroddur. Eftir nokkurt hlé í kjölfar bankahrunsins hefðu verkefnin byrjað að streyma á ný til landsins og hefur Norðurflug komið að myndatöku vegna nokkurra þeirra stóru kvikmyndaverka sem hér hafa verið filmuð undanfarin ár, þar má nefna Prometheus og hasarmyndina Oblivion með Tom Cruise en þyrlur Norðurflugs fóru ekki fáar sendiferðirnar með leikarann þekkta þegar hann dvaldist hér á landi.

Að sögn Birgis skipti miklu að tryggingamál þessara verkefna komust aftur í lag fyrir tveimur árum og sagðist hann vænta þess að þarna yrði talsverð aukning í framtíðinni.

Í þriðja lagi eru síðan erlend verkefni sem að mestu hafa tengst rannsóknarvinnu vegna námavinnslu á Grænlandi. Birgir Ómar sagði að þessi verkefni kæmu með hléum en flest teikn væru á lofti um að þeim fjölgaði enda gríðarleg áform um námavinnslu á Grænlandi.

Biðu í hálft ár eftir flugrekstrarleyfi

Hjá Norðurflugi starfa 6 til 7 menn að staðaldri en félagið reiðir sig einnig á íhlaupamenn. Að sögn Birgis Ómars ákvað félagið að ráða sérstakan tæknistjóra til að tryggja að allt viðhald og eftirlit með þyrlunum væri sem best en fyrirtækið sér að mestu sjálft um allt slíkt.

„Við erum afskaplega bjartsýnir með framhaldið enda má segja að fyrstu árin hafi verið þyrnum stráð. Nú sjáum við fram á vaxandi ferðamennsku og aukna þörf fyrir þjónustu eins og þá sem við bjóðum upp á. Það er og verður alltaf einstök upplifun að skoða landið úr þyrlu,“ sagði Birgir Örn. Þess má geta að Norðurflug fékk flugrekstrarleyfi í júní árið 2008 eftir að hafa beðið eftir því í hálft ár.

Gullfoss er vinsæll áfangastaður fyrir farþega Norðurflugs.
Gullfoss er vinsæll áfangastaður fyrir farþega Norðurflugs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK