Fréttaskýring: Draga í efa nauðsyn þess að stofna fjármálastöðugleikaráð

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Eggert

Ólíklegt verður að teljast að stofnun sérstaks fjármálastöðugleikaráðs, sem hefði meðal annars ríkar valdheimildir til að afla víðtækra upplýsinga um fjármálastarfsemi á Íslandi og framkvæma reglulegt kerfisbundið áhættumat fyrir fjármálakerfið, muni ná því markmiði sem að er stefnt – ekki síst í ljósi þess að á það mun ekki reyna þegar aðstæður eru „á lygnum sjó“ heldur fyrst og fremst þegar vandamál eru í aðsigi. Þetta kemur fram í umsögn Arion banka sem var nýverið send til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins vegna skýrslu ráðherra til Alþingis um framtíðarskipan fjármálakerfisins sem var birt fyrr á þessu ári.

Eðlilegt að fela þeim ábyrgð sem hafa mesta þekkingu

Á það er bent í umsögn bankans, sem er undirrituð af Höskuldi Ólafssyni, bankastjóra Arion, að til þess að „krísustjórnun virki þurfa þeir sem eiga að ráða för við slíkar aðstæður að hafa til þess þjálfun, þekkingu og umboð“. Af þeim sökum telur Arion banki „eðlilegt að fela þeim ábyrgð sem mesta þekkingu hafa í stað þess að koma upp nýjum stofnunum eða nefndum sem fá upplýsingar með tilteknu millibili frá þeim stofnunum sem hafa eftirlit með fjármálakerfinu“.

Það er því mat Arion, að því er fram kemur í umsögn bankans, að ekki sé þörf á að breyta núverandi skipulagi þar sem samvinna stofnana eigi að duga til að fylgjast með þróun fjármálamarkaða og veita stjórnvöldum fullnægjandi upplýsingar.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, kynnti efni skýrslunnar á blaðamannafundi í marsmánuði síðastliðnum þá sagðist hann vonast eftir því að frumvarp um regnhlífarlög yfir fjármálstarfsemi yrði lagt fram á Alþingi í haust. Hluti af slíkum lögum yrði að koma á fót fjármálastöðugleikaráði, sem hefði það meginhlutverk að koma í veg fyrir fjármálaáföll, en í skýrslunni er lagt til að ráðið verði eingöngu skipað fulltrúum stjórnvalda, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins.

Samtök atvinnulífsins (SA) gagnrýna hins vegar þessa samsetningu ráðsins og segja hana „ófullnægjandi“. Í umsögn SA til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins kemur fram sú skoðun samtakanna að „í ráðinu þyrftu auk framangreindra að sitja fulltrúar fjármálafyrirtækja, neytenda og heildarsamtaka vinnumarkaðarins. Þátttaka þeirra myndi treysta stöðu ráðsins og koma til móts við gagnrýni á skort á lýðræðislegri ábyrgð, einkum ef ráðinu yrðu faldar miklar valdheimildir“.

Viðskiptaráð geldur einnig varhug við þeim áformum að ráðast í að koma á fót sérstöku fjármálastöðugleikaráði, meðal annars í ljósi þess að fjármálastöðugleikasvið er nú starfrækt innan Seðlabankans og þjóðhagssvið innan FME. „Gera má ráð fyrir því,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs, „að aukin samskipti um mál er varða fjármálastöðugleika og almennt aukin samhæfing dragi úr þörf á sérstöku ráði sem ætluð er sama ábyrgð.“

Ekki gera lítið úr hlutverki og áhrifum eindareftirlits

Í umsögn Kauphallarinnar er tekið í svipaðan streng og undirstrikað mikilvægi þess að ekki sé gert lítið úr hlutverki og áhrifum eindaeftirlits. Í því samhengi bendir Kauphöllin á að það sé ljóst að það umhverfi sem hafi skapast í íslensku fjármálalífi í aðdraganda fjármálakreppunnar haustið 2008 hafi það haft hvað „mest áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins að einingar innan þess, hver og ein fyrir sig, hafi verið veikar fyrir þó að samspil þeirra veikleika hafi vafalítið magnað óstöðugleikann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK