AGS: Efnahagur heimsins veikari

Hagvaxtaspá Alþjóða gjaldeyrissjóðsins 2012-2013 sem var gefin út 16. júlí.
Hagvaxtaspá Alþjóða gjaldeyrissjóðsins 2012-2013 sem var gefin út 16. júlí. Heimild: AFP

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið út nýja skýrslu þar sem dekkri mynd er dregin upp af efnahagsbata heimsins en áður hafði komið fram. „Á síðustu þremur mánuðum hefur alþjóðlegur efnahagsbati, sem ekki var sterkur fyrir, sýnt frekari veikleikamerki,“ segir þar og er bent á að stress á mörkuðum í evruríkjunum hafi haft hamlandi áhrif og að hagvöxtur hafi verið undir væntingum í mörgum af hinum svokölluðu nýmarkaðslöndum. 

Gagnrýndi sjóðurinn að stjórnendur í mörgum af stærri efnahagsríkjum heimsins hefðu brugðist of hægt við og að efnahagsleg áhætta væri enn mjög mikil. „Fjárhagslega hengiflugið“ í Bandaríkjunum var einnig gert að umtalsefni og var varað við því að ef ekki kæmi til samkomulags hjá löggjafanum um hækkun á skuldaþakinu kæmi til mikils niðurskurðar á opinberum gjöldum og skattahækkana þann 1. janúar næstkomandi og það hefði mjög mikil neikvæð áhrif á stærsta efnahagsveldi heimsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því í nýju ársfjórðungsskýrslunni að hagvöxtur í flestöllum stóru efnahagsríkjunum verði minni en áður hafði verið spáð. Gerir sjóðurinn þó ráð fyrir að hagvöxtur í Þýskalandi, Spáni og Japan verði 0,4% hærri á þessu ári en áður hafði verið gert ráð fyrir. Í Mexíkó er spáð 0,3% hærri hagvexti og Mið-Austurlöndunum 1,3% hækkun. Svipuð saga er uppi með spá fyrir 2013, en gert er ráð fyrir minni hagvexti en áður hafði komið fram hjá flestöllum ríkjum.

Stærstu fréttirnar í þetta skiptið eru að fyrir árið 2012 er aðeins gert ráð fyrir 0,2% hagvexti í Bretlandi, jafnvel þótt Ólympíuleikarnir verði haldnir þar seinna á árinu og hefur verið samdráttur um 0,6% milli kannana. Sama er upp á teningnum árið 2013 og er gert ráð fyrir 1,4% hagvexti í stað 2% áður. Spáin fyrir Indland dregst svo saman um 0,7% fyrir bæði árin, Kína fer niður um 0,2% og 0,3% en Brasilía lækkar um 0,6% í ár en bætir við sig 0,5% á næsta ári. Fréttirnar eru einnig slæmar fyrir Spán, en horfurnar fyrir 2013 eru mun neikvæðari en fyrir 3 mánuðum og stefnir ekki í að Spánn sjái jákvæðan hagvöxt fyrr en í fyrsta lagi 2014. Á meðfylgjandi grafi má sjá nánari upplýsingar um hvert land eða hóp landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka