Afrek Anniear Mistar Þórisdóttur í crossfit hefur ekki farið fram hjá mörgum. Um helgina bættist við enn ein viðurkenningin þegar hún varði heimsmeistaratitilinn og varð þar með fyrsta konan til að gera slíkt. Verðlaunaféð var ekki af verri endanum og fékk Annie 250 þúsund Bandaríkjadollara, eða sem svarar 32,3 milljónum íslenskra króna. Í fyrra fékk Annie sömu upphæð, en vegna lægra gengis var sú upphæð um 28,7 milljónir króna.
Verðlaunafé sem þetta er skattskylt hérlendis líkt og aðrar tekjur og því má gera ráð fyrir að Annie fái ekki allt verðlaunaféð í hendurnar, en hún er með skráð lögheimili hérlendis. Þegar verðlaunafé þessa árs er skipt niður á mánuði og sett í reiknivél ríkisskattstjóra má sjá að af þessum rúmlega 32 milljónum þarf hún að greiða rúmlega 14,5 milljónir í skatt en heldur eftir rúmlega 18,1 milljón. Það gerir um 1,5 milljónir í mánaðartekjur vegna sigursins.
Þess ber að geta að Annie Mist skrifaði upp á samning við íþróttavöruframleiðandann Reebok og er eitt af andlitum þeirra fyrir crossfit-vörur. Samkvæmt Viðskiptablaðinu felur samningur Anniear Mistar líka í sér að hún fái styrk vegna ferðalaga og æfinga auk þess að koma að hönnun vörulínunnar.