Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur óskað eftir því við aðildarríkin að fá að hefja viðræður um fríverslunarsamning við Japan. Sagði Karel De Gucht, en hann fer með verslunar- og viðskiptamál í framkvæmdastjórn ESB, að samningur sem þessi gæti aukið verga landsframleiðslu í Evrópusambandinu um eitt prósentustig, aukið útflutning til Japans um þriðjung og búið til um 400 þúsund störf víðsvegar í sambandinu.
De Gucht segir að í því efnahagsástandi sem núna sé í Evrópu þurfi löndin á slíkum samningi að halda og að boltinn sé núna hjá aðildarríkjunum. „Ég myndi biðja þau um að grípa tækifærið og gefa framkvæmdastjórninni leyfi til að hefja viðræður.“ Þeir atvinnuvegir sem slíkur samningur hefði mest áhrif á væru landbúnaður, drykkjavörur, tölvu- og upplýsingatækni, efnavörur og lyfjageirinn.
Bretland gaf strax grænt ljós, en atvinnumálaráðherrann Norman Lamb sagðist taka vel á móti slíkum samningi og vonaðist til að samningaviðræður hæfust fyrir lok ársins. Franskir, ítalskir og þýskir embættismenn höfðu þó efasemdir um ágæti samningsins og var innkaupastefna japönsku ríkisstjórnarinnar og ýmis vandamál við að komast á japanska markaði höfuðverkur sem þeir töldu að þyrfti fyrst að leysa.
Benti De Gucht á að fríverslunarsamningurinn við Suður-Kóreu árið 2010 hefði hjálpað evrópskum bílaiðnaði mikið og aukið útflutning. Hann sagði jafnframt að ef Japan gerði ekki neitt á næsta ári til að minnka markaðshömlur sem ekki tengjast innflutningsgjöldum sliti hann viðræðunum.
Í dag er Evrópusambandið í viðræðum við ríki og alþjóðasambönd víðsvegar um heiminn og ef þeir yrðu allir samþykktir væri áætluð aukning við verga landsframleiðslu Evrópusambandsins um 250 milljarðar evra, en það samsvarar landsframleiðslu Danmerkur eða Austurríkis.