Uppgjör finnska farsímarisans Nokia á öðrum ársfjórðungi var tvöfalt verra en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir. Var tap fyrirtækisins 1,41 milljarður evra sem er fjórfalt meira tap en á sama tíma í fyrra. Sala fyrirtækisins hefur dregist saman um 19%, en var þó meiri en gert hafði verið ráð fyrir.
Nokia missti nýlega 14 ára stöðu sína sem stærsti framleiðandi farsíma og varaði forstjóri félagsins, Stephen Elop, þá við því að fyrirtækið stæði á brennandi undirstöðum og þyrfti að breyta um stefnu strax. Var þá Symbian-stýrikerfi fyrirtækisins hent út úr snjallsímum Nokia og tekið upp samstarf við Microsoft. Nokia vonar nú að Lumia-snjallsímarnir sem unnir eru upp úr því samstarfi muni hjálpa fyrirtækinu við að lifa af samkeppni frá Apple, RiM og Google.
Eftir fréttir af þessu tapi hækkuðu þó hlutabréf Nokia um 9,63%, en talið er að góð lausafjárstaða fyrirtækisins skýri það.