Spánn er á bjargbrúninni. Ávöxtunarkrafan á tíu ára spænsk ríkisskuldabréf hefur hækkað skarpt síðustu daga vegna ótta um að stjórnvöld muni brátt ekki lengur hafa aðgang að erlendum lánamörkuðum.
Vaxandi líkur eru taldar á því að Spánn eigi ekki annarra kosta völ en að óska eftir neyðaraðstoð frá Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að forða ríkinu frá mögulegu greiðsluþroti. Við lokun markaða í gær nam ávöxtunarkrafan á tíu ára ríkisskuldabréf Spánar 7,5% og hafði aldrei mælst hærri. Að öðru óbreyttu er staða ríkisfjármála á Spáni ósjálfbær.
Kastljós fjárfesta beinist einnig enn sem fyrr að Grikklandi í kjölfar frétta um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætli ekki reiða af hendi frekari fjármuni til grískra stjórnvalda. Frá því var greint í þýska dagblaðinu Spiegel að sjóðurinn hefði misst þolinmæðina gagnvart ráðamönnum í Aþenu þar sem þeim hefur ekki tekist að uppfylla þau skilyrði sem sett voru fyrir veitingu annars neyðarlánsins til Grikklands. Þar að auki hefur Evrópski seðlabankinn hætt að taka við grískum ríkisskuldabréfum sem tryggingu fyrir útgreiðslu lána. Líkur á greiðsluþroti og brotthvarfi Grikklands af evrusvæðinu – jafnvel strax í haust – eru nú taldar hafa aukist umtalsvert.
Á þessum tímapunkti er sagan af skuldavandræðum Grikklands flestum kunn. Síðustu tvö ár hafa Grikkir ítrekað þurft að leita til aðildarríkja evrusvæðisins og AGS í því augnamiði að fá aðgang að lánsfjármagni. Þau neyðarlán hafa verið veitt gegn skilyrðum um að Grikkir myndu skera niður í ríkisrekstri til að draga úr næstum 10% fjárlagahalla ríkisins. Ráðamenn í Aþenu verða að minnka hallann í 3% fyrir árslok 2014 – en þau áform þýða 12 milljarða evra í frekari niðurskurð í ríkisútgjöldum og skattahækkanir. Slíkur niðurskurður, þó nauðsynlegur sé, mun að öllum líkindum aðeins dýpka enn frekar samdráttinn í efnahagslífinu. Landsframleiðsla mun dragast saman fimmta árið í röð á þessu ári og skuldir ríkisins hafa aukist úr 113% sem hlutfall af landsframleiðslu 2008 í 165% árið 2011.
Þegar hafður er í huga sá mikli skuldavandi sem við er að etja kemur ekki á óvart að grískir stjórnamálamenn reyni eftir fremsta megni að ná fram samkomulagi við lánveitendur sína – Evrópska seðlabankann, AGS og ESB – um að slakað verði á skilyrðum um harkalegar aðhaldsaðgerðir samfara frekari lánveitingum. Ólíklegt verður hins vegar að teljast að evrópskir stefnusmiðir muni láta eftir kröfum Grikkja. Ef áform um 3% halla á fjárlögum frestuðust um tvö ár myndi það þýða að grísk stjórnvöld þyrftu 40 milljarða evra lán til viðbótar. Sú upphæð þyrfti aftur á móti að koma úr aðþrengdum björgunarsjóði ESB, sem í kjölfarið væri verr í stakk búinn til að bregðast við mögulegum áföllum á Spáni og Ítalíu.
Þeim fjölgar í hópi þeirra sem telja hætt við því að örlög Spánar verði þau hin sömu og Grikklands. Ljóst þykir að markmið spænskra stjórnvalda um að ná fjárlagahallanum í 6,3% af vergri landsframleiðslu á þessu ári mun ekki nást. Hagkerfið dróst saman um 0,4% á öðrum fjórðungi þessa árs sem var meiri samdráttur en spáð hafði verið. Hagfræðingar telja ósennilegt að samdráttarskeiðinu linni fyrr en í fyrsta lagi árið 2014.
Það verður því hægara sagt en gert fyrir stjórnvöld á Spáni að endurheimta tiltrú fjármálamarkaða. Spænska ríkið stendur frammi fyrir gríðarlegri fjármögnunarþörf á næsta ári. Stjórnvöld þurfa að endurfjármagna ríflega 230 milljarða evra, eða sem nemur um 21% af vergri landsframleiðslu. Fjórðungur þessarar upphæðar kemur til vegna halla á rekstri ríkisins á meðan afgangurinn er vegna skulda ríkisins sem falla á gjalddaga. Spænska ríkið getur enn sótt sér fjármagn á lánamörkuðum en vaxtakjörin eru engu að síður með þeim hætti að skuldastaða Spánar er ekki sjálfbær til lengdar. Svipað er uppi á teningnum á Ítalíu, sem þarf að sækja sér 380 milljarða evra á lánamörkuðum á næsta ári, en 93% af þeirri upphæð eru vegna skulda sem eru á gjalddaga.
Orrustan á evrusvæðinu er að tapast. Góðum peningum hefur trekk í trekk verið kastað á eftir slæmum – án þess að í raun hafi margt áunnist. Þrátt fyrir að fjárfestar dragi ekki í efa að evrópskir stefnusmiðir geti forðað evrusvæðinu frá uppbroti og mögulegu greiðsluþroti aðildarríkja myntbandalagsins þá er spurningin hins vegar fremur hvort pólitískur vilji sé fyrir hendi til að grípa til þeirra úrræða sem nauðsynleg eru.
Efnahagsvandræði Spánar og Ítalíu munu að öllum líkindum kalla á frekari neyðarlán af hálfu ESB. Slíkar smáskammtalækningar duga skammt. Á meðan stefnusmiðir evrusvæðisins standa gegn þeim aðgerðum sem í raun og veru gætu skipt sköpum fyrir skulda- og bankakreppuna á evrusvæðinu – útgáfu sameiginlegra evruskuldabréfa, bankabandalags og aukinni verðbólgu í Þýskalandi – þá á vandinn aðeins eftir vaxa að umfangi. Fjármagnsflótti úr jaðarríkjunum mun halda áfram samhliða viðvarandi samdrætti í efnahagslífinu. Og einn daginn munu flóðgáttirnar bresta með ófyrirséðum pólitískum og efnahagslegum afleiðingum.