Frakkar munu óska eftir því við Evrópusambandið að fríverslunarsamningur þess við Suður-Kóreu verði skoðaður með það fyrir augum að hjálpa til við endurreisn fransks bílaiðnaðar. Er markmiðið sérstaklega að hækka hlutfall umhverfisvænna bíla sem stjórnvöld þurfa að kaupa og auka endurgreiðslu þegar keyptir eru rafmagns- og tvinn-bílar.
Á síðustu árum hefur franskur bílaiðnaður horft á minnkandi sölu og sögðu nýlega 8000 manns upp sem unnu hjá fyrirtækinu. Uppgjörstölur Peugeot, stærsta bílaframleiðandans í Frakklandi, fyrir fyrri hluta ársins sýndu tap upp á 819 milljónir evra og vilja forsvarsmenn fyrirtækisins og franskir ráðamenn reyna að snúa við þessari þróun til að missa ekki enn fleiri störf í því erfiða ástandi sem varir á evrópska markaðinum og í því mikla atvinnuleysi sem nú þegar er til staðar í Frakklandi.
Ef áætlunin nær fram að ganga munu endurgreiðslur vegna kaupa á rafmagnsbílum hækka úr 5000 evrum í 7000 og vegna kaupa á tvinn-bílum úr 2000 evrum í 4000. Er gert ráð fyrir að þetta muni aðallega hjálpa Peugeot og Renault. Sá síðarnefndi er næst stærsti framleiðandinn í Frakklandi og hefur lagt áherslu á rafmagnsbíla en Peugeot selur dísel tvinn-bíla.