Mun hækka matvöruverð á Íslandi

Skrælnaðir maísakrar í Illinois-ríki.
Skrælnaðir maísakrar í Illinois-ríki. AFP

Heimsmarkaðsverð á maís og sojabaunum er í hæstu hæðum vegna gríðarlegra þurrka og uppskerubrests í miðríkjum Bandaríkjanna. Þessar hækkanir munu hafa áhrif á matvælaverð á Íslandi strax í haust að mati hagfræðings. Maís hefur hækkað um 33% á einum mánuði.

„Þetta gæti haft áhrif á matvælaverðið hér á landi mjög fljótlega, en líklega ekki fyrr en í haust,“ segir Magnús Stefánsson, hagfræðingur á hagfræðideild Landsbankans. Magnús bendir á að hækkanir á einstökum kornvörum geti haft mikil margfeldisáhrif á allt matvælaverð. Hann vill þó ekki spá fyrir um hversu mikil áhrif þetta muni hafa á matvælaverðið hér á landi í prósentum talið.

„Það sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu er hugsanleg víxlverkun verðlags og launa. Hættan er að þegar verðhækkanir á maís skila sér inn í marvöruverð hér á land þá finni hin almenni launamaður það strax. Þetta verður til þess að það verður meiri þrýstingur á launahækkanir, sem aftur skila sér inn í verðlagið,“ segir Magnús.

 Því er spáð að í Bandaríkjunum muni matvælaverð hækka um 2,5-3,5% á þessu ári vegna hækkana á korni og svo um 3-4% á næsta ári. Matvæli munu því hækka mest af allri vöru þar í landi á árinu.

Þó farið sé að rigna í miðríkjunum er talið að uppskeran sé að stórum hluta ónýt en Bandaríkin eru einn stærsti útflytjandi maís og sojabauna í heiminum.

Maís notaður í fjölmargar vörutegundir

Maís og sojabaunir eru mikið notaðar í dýrafóður. Þá eru maísolía notuð sem sterkja í gríðarlega mörgum vörutegundum. Þá er maís einnig notaður í framleiðslu á lífrænu eldsneyti.

Heimsmarkaðsverð á maís hækkaði enn um 3% í gær og um 33% á einum mánuði en þurrkarnir sem geisað hafa á stærstu framleiðslusvæðunum í miðríkjum Bandaríkjanna eru þeir verstu í yfir fimmtíu ár. Þá hefur annað korn, svo sem hveiti, einnig hækkað í verði í sumar.

„Þurrkarnir munu hafa veruleg áhrif á matvælaverð á næsta ári,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir bandaríska hagfræðingum Richard Volpe. „Þeir eru þegar farnir að segja alvarlega til sín í verði á maís og sojabaunum en þessi áhrif munu skríða upp allt kerfið og hafa áhrif á matvælaverð og fóðurverð.“

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Bandaríkjanna hefur spáð því að framleiðsla á korni muni dragast saman um 23 milljónir tonna í ár og verða 2,40 milljarðar tonna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK