Horfurnar gætu batnað með aðhaldi í ríkisrekstri

Icesave er minni áhætta gagnvart skuldastöðu landsins en áður var …
Icesave er minni áhætta gagnvart skuldastöðu landsins en áður var talið. mbl.is

Þrátt fyrir merki um hægfara bata í efnahagslífinu og að horfurnar til skamms tíma séu jákvæðar þá eru ýmsir áhættuþættir sem gætu sett strik í reikninginn.

Ef skulda- og bankakreppan á evusvæðinu fer dýpkandi, fjárfesting verður minni en spár gera ráð fyrir og lausatök í ríkisfjármálunum aukast þá myndi slíkt hafa umtalsverð neikvæð áhrif á vaxtahorfur Íslands á næstu 2-5 árum.

Þetta kemur fram í ársskýrslu bandaríska matsfyrirtækisins Moody's um íslenska hagkerfið, en Moody's heldur lánshæfiseinkunn ríkisins óbreyttri, Baa3, og horfunum neikvæðum. Matsfyrirtækið segir að efnahagshorfurnar geti hins vegar breyst úr neikvæðum í stöðugar haldi stjórnvöld sig við þau markmið sem þau hafi sett sér í ríkisrekstrinum næstu árin.

Þótt Moody's eigi von á því að fjárlagahallinn haldi áfram að dragast saman á þessu ári, sem jafnframt mun verða til þess að skuldir ríkisins minnka í fyrsta skipti frá hruni bankakerfisins, þá telur matsfyrirtækið brýnt að stjórnvöld sýni enn meira aðhald í ríkisfjármálunum.

Að mati Moody's er þörf á jákvæðum frumjöfnuði – mismunur á tekjum og útgjöldum ríkissjóðs að vaxtakostnaði frátöldum – upp á 3,5% af vergri landsframleiðslu á komandi árum eigi stjórnvöldum að takast að grynnka verulega á miklum skuldum ríkisins. Moody's spáir því að skuldir ríkisins dragist saman úr 118% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári í 80% árið 2016. Það yrði umtalsvert betri skuldastaða en búist er við að verði reyndin í flestum öðrum löndum í Evrópu.

Þörf á 60 milljarða afgangi

Ljóst er að lítið má útaf bregða í ríkisrekstrinum eigi þau áform að ganga eftir. Jákvæður frumjöfnuður upp á 3,5% myndi þýða að ríkið þyrfti að skila hátt í 60 milljarða afgangi á þessu ári. Í fjárlögum þessa árs er hins vegar gert ráð fyrir tæplega 36 milljarða jákvæðum frumjöfnuði.

Þorbjörn Atli Sveinsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun Moody's að halda lánshæfiseinkunn Íslands óbreyttri og horfunum neikvæðum komi ekki á óvart. Hann bendir á að það sé „metnaðarfullt markmið“ að stefna á að viðhalda 3,5% jákvæðum frumjöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum. Hins vegar sé það í samræmi við áætlun stjórnvalda og ætti að geta gengið eftir ef spár um 2,5-3% hagvöxt og minnkandi atvinnuleysi ganga eftir.

Einnig kemur fram í skýrslu Moody's að Icesave-deilan, þótt hún sé enn óleyst, sé minni áhætta gagnvart skuldastöðu Íslands heldur en áður hafi verið haldið.

Neikvæðar horfur

» Moody's heldur lánshæfiseinkunn Íslands óbreyttri og telur horfurnar neikvæðar.
» Horfurnar gætu breyst í stöðugar með áframhaldandi aðhaldi í rekstri ríkisins.
» Þörf á 3,5% jákvæðum frumjöfnuði á komandi árum eigi að takast að minnka skuldir ríkisins.
» „Metnaðarfullt markmið,“ segir hagfræðingur Arion.
» Minni áhætta af Icesave-deilunni en áður var talið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK