Margmenni var saman komið fyrir utan matvöruverslunina Iceland í morgun en verslunin, sem er í eigu Jóhannesar Jónssonar kaupmanns, opnaði klukkan ellefu og er hún staðsett í Engihjalla í Kópavogi.
Skömmu fyrir opnun ávarpaði Jóhannes stuttlega tilvonandi viðskiptavini sína en að því loknu var fólki hleypt inn og heilsaði Jóhannes viðskiptavinum sínum með handabandi.
„Þetta er búið að ganga framar öllum vonum og stemningin hér er stórkostleg,“ sagði Jóhannes Jónsson kaupmaður í samtali við mbl.is en hann kveðst einnig hafa hitt fjölmarga af sínum gömlu kunningjum við opnunina.
„Ég get ekki verið annað en mjög hamingjusamur með þetta. Bílastæðin voru full og einnig óhemja af fólki sem kom úr nágrenninu,“ sagði Jóhannes.
Jóhannes veitti Félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma styrk upp á eina milljón króna.
Að auki mun hann veita Bandalagi íslenskra skáta styrk upp á eina milljón. Segir Jóhannes að Bragi Björnsson skátahöfðingi muni taka á móti styrknum á landsmóti skáta sem nú fer fram á Úlfljótsvatni.
„Ég var skáti sjálfur fyrir sextíu árum síðan en mér finnst þetta bara svo frábært forvarnar- og uppeldisstarf sem þeir vinna,“ sagði Jóhannes og því hafi hann ákveðið að veita skátum styrkinn.
Meðal þeirra sem sjá mátti í verslun Jóhannesar í dag var tónlistarmaðurinn landsþekkti Bubbi Morthens og var hann meðal fyrstu viðskiptavina dagsins.
Að sögn Jóhannesar tók Bubbi þó ekki lagið í tilefni opnunarinnar.