Dálkahöfundur sunnudagsblaðsins Observer skrifar um opnun verslunarinnar Iceland á Íslandi. Hann segir Malcolm Walker, eiganda Iceland, ekki hafa gleymt sínum gömlu viðskiptafélögum.
Simon Goodley rekur tengsl feðganna Jóhannesar Jónssonar og Jóns Ásgeirs Jónssonar við matvörukeðjuna Iceland í grein sinni og segir íslenska viðskiptavíkinginn Jón Ásgeir nú aftur leita í ræturnar með hjálp stofnanda Iceland, Malcolms Walkers.
Walker, sem endurheimti Iceland fyrr á árinu, hafi ekki gleymt sínum gömlu félögum, og að Jóhannes Jónsson hafi stoltur opnað fyrstu Iceland-verslunina á Íslandi um helgina.
Goodley fer yfir viðskiptasögu feðganna, hvernig þeir stofnuðu lágvöruverðsverslunina Bónus á níunda áratugnum og hófu svo að byggja upp viðskiptaveldi sitt, undir nafni Baugs. Jón Ásgeir hafi svo leitað samstarfsaðila til að kaupa Iceland-keðjuna og að Walker, sem á þeim tíma var ekki lengur eigandi hennar, hafi verið augljós kostur.
Þá skrifar Goodley að bankahrunið hafi þurrkað viðskiptaveldið Baug út og að Walker hafi í kjölfarið náð yfirráðum í Iceland.
Nú hafi greiðinn verið launaður og „án efa nýtur Jóhannes Jónsson þess að vera kominn í beina samkeppni við sína gömlu verslun, Bónus,“ skrifar Goodley.