Forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti, mun sækja Spán heim í dag þar sem hann ræðir við starfsbróður sinn Mariano Rajoy. Er ætlunin að fylgja eftir góðu gengi í síðustu viku þegar hlutabréf og vaxtaálag lækkuðu í kjölfar ummæla seðlabankastjóra Evrópu og helstu leiðtoga evruríkjanna um að stutt verði við gjaldmiðilinn með öllum ráðum. Eftir Spánarheimsóknina heldur Monti til Frakklands og hittir þar Francois Holland Frakklandsforseta áður en hann heldur til Helsinki á fimmtudaginn.
Ráðamenn í Finnlandi hafa hingað til verið frekar harðir í horn að taka og viljað fá sérstakar tryggingar fyrir sínum hluta þegar evruríkin hafa veitt neyðarlán til skuldugra ríkja sunnanmegin í álfunni. Gæti Monti ef til vill rætt slíkt á fundinum, þótt ekkert hafi verið gefið upp um umræðuefnið.
Í dag lækkuðu vextir á fimm ára ítölskum ríkisskuldabréfum úr 5,84% í 5,29%. 10 ára bréfin lækkuðu einnig og fóru niður fyrir 6% markið. Samþykkti seðlabankinn sölu á bréfunum á 5,96% vöxtum miðað við 6,19% í síðasta útboði. Heildareftirspurn var um 7,6 milljarðar evra en samþykkt var sala á 5,48 milljörðum. Í kjölfar útboðsins hækkuðu hlutabréf á Ítalíu um 2,77% í viðskiptum í morgun.