Manchester United hefur ákveðið að fara á markað og safna upp 10% í nýju hlutafé. Markmiðið er að ná 330 milljónum Bandaríkjadollara (40 milljarðar íslenskra króna), en áður hafði verið til skoðunar að skrá félagið á markað í Singapúr og sækja einn milljarð Bandaríkjadollara í nýtt hlutafé. Þetta kemur fram í frétt BBC um söluna. Skoðanir eru skiptar um þessar fyrirætlanir, en eigendur félagsins, Glazer-fjölskyldan, virðast aðeins ætla að ráðstafa helmingi upphæðarinnar í félagið sjálft meðan svo gæti farið að hinn helmingurinn yrði tekinn út og aukið á skuldir félagsins.
Í skjali sem sent var til kauphallarinnar í New York vegna skráningarinnar kemur fram að bréfin verði í A-flokki, en þau hafa tíu sinnum minna vægi en bréf í B-flokki sem Glazer-fjölskyldan á. Höfðu margir aðdáendur gert sér vonir um að skuldir yrðu greiddar niður með því fé sem safnaðist í útboðinu, en félagið skuldar í dag meira en 680 milljónir Bandaríkjadollara og hlýst því töluverður kostnaður af því sem annars væri hægt að nota í leikmannakaup eða laun.
Hver hlutur verður seldur á bilinu 16 til 20 dollara, en miðað við það gengi er áætlað virði félagsins um þrír milljarðar dollara. Það er nokkru hærra en bandaríska tímaritið Forbes mat félagið á fyrr í ár, en heildarvirði félagsins var þar sagt vera 2,23 milljarðar dollara. Þess má geta að fyrir um tveimur árum var félagið metið á 1,5 milljarða af hugsanlegum kaupandahópi sem leiddur var af Jim O'Neill hjá Goldman Sachs-bankanum.
Margir hafa því efasemdir um að verðmæti félagsins sé virkilega eins mikið og Glazer-fjölskyldan vonast eftir og sagði markaðssérfræðingurinn Michael Jarman í viðtali við BBC að það væru margir miklu betri fjárfestingarmöguleikar þar sem fólk hefði eitthvað að segja í rekstri félagsins, en valdaleysi A-hlutanna er talið fæla fjárfesta frá. Miðað við stöðu markaðarins síðustu ár og 5% lækkun tekna milli ára er því erfitt að réttlæta 50-100% hækkun á virði félagsins á einu til tveimur árum.
Í skráningalýsingunni koma fram nokkrir aðrir áhugaverðir hlutir um rekstur félagsins. Í fyrra eyddi félagið t.d. 50 milljónum punda í leikmannakaup, tekjur þess voru 315-320 milljónir punda og fóru niður um 5% frá fyrra ári. Manchester á um 70 milljónir punda í lausu fé og sjónvarpstekjur voru á bilinu 102-104 milljónir punda, sem er um 12% lækkun milli ára.