250% aukning varð á 3G-niðurhali í júlí hjá fjarskiptafyrirtækinu Tali í kjölfar þess að fyrirtækið lækkaði verð á þjónustunni. 3G gerir fólki kleift að vera í háhraðanetsambandi næstum hvar sem er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Góð afkoma var af rekstri Tals fyrstu sex mánuði ársins. EBIDTA-hagnaður var 104 milljónir miðað við 27 milljónir á sama tíma á síðasta ári. „Hagnaður af rekstri hefur nærri fjórfaldast miðað við fyrstu sex mánuði ársins 2011 og tekjur okkar hafa aukist um 7%. Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu,“ er haft eftir Viktori Ólasyni, forstjóra Tals, í fréttatilkynningu.
„Við gerðum viðamiklar kannanir á netnotkun fólks og niðurstaðan var skýr: Fólk vill meira net í símann og það vill það ódýrt. Sífellt fleiri Íslendingar vilja vera sítengdir, með aðgang að nýjustu upplýsingum hvar og hvenær sem er. Margir vilja nota tölvupóst, skoða veðurspár og fréttir, en aðrir vilja bara geta spilað tónlistarmyndbönd á YouTube í útilegunni án þess að hafa áhyggjur af kostnaði,“ segir Viktor.
Þessi mikla aukning á 3G-niðurhali varð í kjölfar þess að Tal hóf fyrr í sumar að bjóða 10 GB niðurhal á 500 krónur fyrir þá sem eru með farsíma í áskrift hjá Tali.
Tal flutti starfsemi sína af Suðurlandsbraut 24 í verslunarmiðstöðina Grímsbæ í Efstalandi 26 í byrjun sumars. Auk þess rekur það verslanir í Kringlunni og Smáralind og er með umboðsaðila á Glerártorgi á Akureyri. Sjötíu manns starfa hjá Tali í dag.
Tal leigir afnot af bestu kerfum stóru símafyrirtækjanna og selur áfram til viðskiptavina sinna á lægra verði en stóru fyrirtækin bjóða. Fyrirtækið leggur áherslu á að eyða litlu fé í auglýsingar, vera með litla yfirbyggingu og lágan rekstrarkostnað.