Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag að stærsti banki Japans, Nomura, hafi gefið út skýrslu þar sem fjallað er um mögulega úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu og hvaða áhrif slík úrsögn kynni að hafa. Um sé að ræða fyrstu skýrslu stórs banka um hugsanlega úrsögn landsins.
Í skýrslunni segir meðal annars að óvíst sé hver þau áhrif yrðu þó efasemdamenn um veruna í ESB telji að það hefði jákvæð áhrif á breskt efnahagslíf ef það yrði laust við regluverk frá sambandinu. Ástæða sé þó til þess að hafa áhyggjur af mögulegri úrsögn Bretlands úr ESB og þess sé þegar farið að gæta í fjármálahverfi Lundúnaborgar.
Fram kemur í fréttinni að hugsanlega gæti komið til þess næsta haust að atburðir á evrusvæðinu yrðu til þess að bresk stjórnvöld sæju sig tilneydd að gefa úr ákveðna dagsetningu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Bretland ætti að vera áfram innan ESB eða ekki en mikill þrýstingur hefur verið þar í landi á að slík kosning fari fram.